Þjálfari knattspyrnuliðs á Gothia Cup í Svíþjóð hefur verið ákærður fyrir kynferðisbrot gegn þremur stúlkum á opnunarhátíð knattspyrnumótsins.
Mbl.is greindi frá málinu í vikunni en í kjölfar opnunarhátíðarinnar á maðurinn ásamt allt að 40 leikmönnum liðsins að hafa umkringt þrjár stúlkur. Drengirnir héldu stúlkunum föstum á meðan þjálfarinn og einhverjir leikmenn kysstu stúlkurnar og káfuðu á þeim innan klæða þeirra. Þjálfarinn á meðal annars að hafa snert kynfæri stúlknanna.
Sjá frétt mbl.is: 30-40 drengir umkringdu stúlkurnar
„Þeir snertu þær og reyndu að koma höndunum undir föt þeirra. Þeir snertu kynfæri þeirra. Þeir kysstu þær og allt í einu fékk dóttir mín tunguna á fullorðnum manni upp í sig,“ sagði móðir einnar stúlkunnar í samtali við SVT.
Sjá frétt mbl.is: Braut gegn stúlkum á Gothia Cup
Liðið hefur nú verið dæmt úr leik á mótinu og leikmennirnir sendir heim. Ákæra hefur verið gefin út gegn þjálfaranum en hann er sá eini sem verður ákærður fyrir atvikið. Vegna sumarfría við dómstóla í Svíþjóð verða haldnar skýrslutökur fyrir dómi nú í vikunni. Skýrslutökurnar verða teknar upp og spilaðar við aðalmeðferð málsins.
Þjálfarinn var úrskurðaður í gæsluvarðhald en honum hefur nú verið sleppt úr haldi. Verður hann þó að gefa sig fram við lögreglu einu sinni á dag og má hann ekki yfirgefa landið.
Sjá frétt Expressen.