Margir fyrrverandi bekkjarfélagar Hillary Clinton í háskóla gerðu sér ferð til Fíladelfíu á landsþing Demókrataflokksins til að fylgjast með þeirri sögulegu stund er kona hlaut í fyrsta skipti útnefningu sem forsetaframbjóðandi annars stóru bandarísku stjórnmálaflokkanna. Nancy Wanderer var í hópi þessara bekkjarfélaga og hún minnist þess þegar Clinton smitaðist af stjórnmálaáhuganum á sjötta áratug síðustu aldar.
Wanderer er lagaprófessor við Maine-háskóla og fulltrúi á landsþingi Demókrataflokksins, hún segir Clinton hafa verið virka í stjórnmálum strax á árum sínum í Wellesley-háskólanum.
„Hún hafði mikla löngun til að þjóna og eignaði það trúarlegu uppeldi sínu. Kjörorð Wellesley er: Ekki láta þjóna þér heldur þjónaðu öðrum og hún tók það mjög alvarlega,“ segir Wanderer.
„Við vorum náin svörtu nemendunum fimm sem voru að reyna að fræða innritunarskrifstofuna um að hleypa þyrfti fleiri minnihlutahópum í skólann. Í þá daga var nemendum raðað í herbergi eftir kynþætti og trúarbrögðum. Þetta var mikilvægt málefni og Hillary tók mikinn þátt í því.“
Wanderer segir Clinton hafa haft orð á sér fyrir að vera alvörugefin og lítið fyrir skemmtanir þótt hún hafi ekki verið án skopskyns.
Hún hafi þá líka látið sig mannréttindi miklu varða og m.a. verið leiðbeinandi svarts nemanda í Roxbury. „Það er mjög lýsandi fyrir Hillary. Hún var ekkert að kvarta yfir hlutunum, heldur vann í grasrótinni.“
Clinton hafi verið uppbyggilegur leiðtogi. „Hún er sú manneskja sem ég held að flest okkar hafi getað ímyndað sér leiða mótmæli eða standa upp og tala eða hvetja aðra til að tjá sig.“
Wanderer segir Clinton þó hafa ritskoðað sjálfa sig of mikið allt frá því að Bill Clinton var kjörinn ríkisstjóri Arkansas 1978. „Allt þar til í Arkansas gekk allt vel og hún gat verið hún sjálf. Greitt hár sitt eins og hún vildi, notað gleraugu og gengið undir eigin nafni, Hillary Rodham. Síðan þegar Bill var kjörinn ríkisstjóri hófst gagnrýni á hvert einasta smáatriði í fari hennar. Hvernig hún leit út, af hverju hún notaði ekki nafn hans.“
Það hafi líklega verið til að hjálpa eiginmanni sínum sem Clinton litaði hárið ljóst, missti nokkur kíló, fór að nota linsur og klæða sig í kvenlegri föt.
„Síðan þegar þau komust í Hvíta húsið 1993 held ég að hún hafi viljað vera hún sjálf. Hún fékk heilbrigðismálin og líktist meira þeirri Hillary sem ég þekkti og hafði verk að vinna.“
Gagnrýnin hafi hins vegar byrjað fljótt aftur og þá hafi Clinton farið að lokast og hún sé mjög tortryggin gagnvart því að vera sett undir smásjána.
„Ég held að það hafi verið stærsta vandamál hennar síðan þá. Hún er hrædd við að opna sig og vera hreinskilin af því að hún hefur komist að því að það er snúið upp á hlutina og þeim er snúið gegn henni. Þannig að fyrstu viðbrögð hennar eru að hrökkva til baka og vera ekki opin. Hún er innhverf,“ sagði Wanderer.