Frans páfi segir að stríð ríki í heiminum en það sé ekki af völdum trúarbragða.
„Við megum ekki vera hrædd við að segja sannleikann. Það er stríð í heiminum vegna þess að hann hefur tapað friðnum,“ sagði Frans við komu sína til Póllands, degi eftir að öfgamenn myrtu prest í Frakklandi.
„Þegar ég tala um stríð þá á ég við stríð vegna hagsmuna, peninga og auðlinda, en ekki trúarbragða. Öll trúarbrögð vilja að friður ríki, það eru hinir sem vilja stríð,“ sagði hann.
Ríki íslams hefur lýst yfir ábyrgð á dauða kaþólsks prests í gær. Morðið hefur varpað skugga á ferð páfans til Póllands þar sem hundruð þúsunda kaþólskra ungmenna hafa safnast saman.
„Við heyrum mikið talað um óöryggi en réttast er að tala um stríð. Heimurinn hefur átt í sundurskiptu stríði í nokkurn tíma. Eitt stríð hófst 14, annað 39-45 og núna þetta,“ sagði hann og átti við fyrri og síðari heimsstyrjaldirnar.