Fresta byggingu kjarnorkuvers

Tölvuunnin mynd af kjarnorkuverinu við Hinkley Point sem anna á …
Tölvuunnin mynd af kjarnorkuverinu við Hinkley Point sem anna á 7% af raforkuþörf Bretlands. AFP

Stjórnvöld í Bretlandi hafa frestað til haustsins ákvörðunum um byggingu fyrsta kjarnorkuversins sem rísa á í landinu í 20 ár.

Franska fyrirtækið EDF hefur þó samþykkt að fjármagna byggingu kjarnorkuversins sem rísa á við Hinkley Point í Somerset og til stóð að undirrita samninga á morgun, föstudag.

Greg Clark viðskiptaráðherra hefur hins vegar sagt að ríkisstjórnin vilji skoða málið vandlega áður en hún samþykkir bygginguna.

Fréttavefur BBC segir Vincent de Rivaz, framkvæmdastjóra EDF hafa frestað för sinni til Bretlands í kjölfar yfirlýsingar ráðherrans.

Gagnrýnendur hafa varað við þeim umhverfisáhrifum sem kjarnorkuverið kunni að hafa, sem og að kostnaður kunni að rjúka upp úr öllu valdi.

Þeir hafa einnig lýst yfir áhyggjum af því að kjarnorkuverið sé í raun reist af ríkisstjórnum erlendra ríkja, en kínverskir fjárfestar leggja fram þriðjung þeirra 18 milljarða punda sem kjarnorkuverið er talið kosta.

Þá hafa verið uppi áhyggjur af að bygging kjarnorkuversins sé áhættusamt og kostnaðarsamt verkefni, sem geti haft áhrif raforkuverð til langtíma

EDF vonast þó til að uppbygging, sem gert er ráð fyrir að 2.500 verkamenn komi að, verði hafin á næsta ári.

Gert er ráð fyrir hið nýja kjarnorkuver muni anna 7% af raforkuþörf Bretlands.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert