Kljúfa sig frá al-Kaída

Abu Mohammad al-Julani, forsvarsmaður samtakana tillkynnir klofninginn frá al-kaída.
Abu Mohammad al-Julani, forsvarsmaður samtakana tillkynnir klofninginn frá al-kaída. AFP

Samtökin Jabhat al-Nusra, sem eru meðal annarra uppreisnarmanna sem barist hafa gegn sýrlenska stjórnarhernum, tilkynntu í dag klofning sinn frá al-Kaída-hryðjuverkasamtökunum.

Abu Mohammed al-Julani, leiðtogi samtakanna, sagði að eftirleiðis hétu þau Jabhat Fateh al-Sham. Al-Julani sagði breytingunum vera ætlað að fjarlægja þann fyrirslátt sem sýrlenski stjórnarherinn og Rússar nýti sér til að varpa sprengjum á almenna borgara.

Fréttavefur BBC segir Bandaríkjastjórn þegar hafa tjáð sig um málið og að að engin ástæða sé til að hætta að líta á samtökin sem hryðjuverkasamtök.

Al-Kaída hefur tilkynnt að samtökin styðji breytinguna og  Ahmed Hassan Abu al-Khayr, annar æðstu stjórnenda al-Kaída, hafi hvatt al-Nusra að gera það sem þau geti til að verja hagsmuni íslams, múslima og heilags stríðs í Sýrlandi.

Al-Julani segir nýju samtökin ekki munu hafa nein tengsl við erlend samtök, en erlendir sérfræðingar segja nafnabreytinguna gerða eftir að Bandaríkin og Rússland hertu á hernaðaraðgerðum sínum gagnvart al-Nusra.

Talið er að samtökin vonist með þessu móti til að bæta tengsl sín við aðra hópa uppreisnarmanna sem berjast gegn sýrlenska stjórnarhernum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert