Forseti Tyrklands, Recep Tayyip Erdoğan, krefst þess að stjórnvöld í Bandaríkjunum framselji íslamska klerkinn Fethullah Gülen sem hann segir að hafi staðið fyrir valdaránstilrauninni. Gülen er í útlegð í Bandaríkjunum.
Erdoğan sakaði í gær Vesturlönd um að styðja „hryðjuverkamenn“ og þá sem skipulögðu valdaránstilraunina 15. júlí. „Því miður styðja Vesturlönd hryðjuverk og standa með samsærismönnunum sem stóðu fyrir valdaránstilrauninni,“ sagði Erdoğan í sjónvarpsávarpi. „Þeir sem við héldum að væru vinir okkar styðja núna samsærismennina og hryðjuverkamennina.“
Í ræðunni gagnrýndi Erdoğan dómstól í Þýskalandi fyrir að meina honum að ávarpa fund stuðningsmanna sinna í Köln um helgina í sjónvarpsútsendingu. Hann sagði ákvörðun dómstólsins skjóta skökku við þar sem þýsk yfirvöld hefðu leyft leiðtogum Verkamannaflokks Kúrdistan, sem er bannaður í Tyrklandi, að halda slík ávörp í Þýskalandi.
Á Vesturlöndum verða raddir þeirra sem gagnrýna forseta Tyrklands sífellt háværari en landið á aðild að Atlantshafsbandalaginu. Frá valdaránstilrauninni hafa yfir átján þúsund verið handteknir og tugir þúsunda opinberra starfsmanna reknir úr starfi. Nú síðast hafa stjórnvöld beint sjónum sínum að tyrkneska knattspyrnusambandinu og heilbrigðisstarfsfólki á hersjúkrahúsinu í Ankara.
Erdoğan segist ekki vita hvernig Tyrkir geti verið í bandalagi með Bandaríkjunum á sama tíma og Bandaríkin haldi hlífðarskildi yfir Gülen. Í viðtali við mexíkósku sjónvarpsstöðina Televisa sakaði hann Bandaríkjastjórn um að draga lappirnar í framsalsmálinu með því að óska eftir skjölum um málið frá Tyrkjum. „Ef við förum fram á framsal hryðjuverkamanns þá eigið þið að fara að beiðni okkar.“