Árásarmaðurinn 19 ára

AFP

Nítján ára maður var handtekinn skömmu eftir árásina í Lundúnum í gærkvöldi. Talið er að hann hafi myrt konu um sextugt og sært fimm með hníf á Russell Square í miðborginni. Maðurinn er á sjúkrahúsi undir eftirliti lögreglu en að sögn lögreglu glímir maðurinn við andleg veikindi.

Frá Russell Square í morgun.
Frá Russell Square í morgun. AFP

Yfirmaður hryðjuverkadeildar lögreglunnar í Lundúnum, Mark Rowley, segir að við fyrstu sýn bendi allt til þess að andleg líðan mannsins hafi ráðið för þegar hann réðst á fólkið í miðborg Lundúna. En jafnframt sé rannsakað hvort maðurinn tengist á einhvern hátt hryðjuverkasamtökum. 

Konan var úrskurðuð látin á staðnum en tvær konur og þrír karlar særðust í árásinni. Ekki hefur verið upplýst um hversu alvarlega þau eru slösuð. 

Borgarstjórinn í Lundúnum, Sadiq Khan, hvetur borgarbúa til þess að sýna stillingu og um leið aðgætni í kjölfar árásarinnar. Hann sendi frá sér yfirlýsingu í morgun en lögreglan rannsakar eins og áður segir hvort árásarmaðurinn tengist á einhvern hátt hryðjuverkasamtökum.

AFP

Það var klukkan 22:33 að staðartíma (21:33 að íslenskum tíma) sem tilkynnt var til lögreglunnar um að maður vopnaður hnífi væri að ráðast á fólk á torginu. Aðeins sex mínútum síðar var maðurinn handtekinn eftir að lögregla hafði beitt rafbyssu á hann. 

Russell Square er vinsæll áfangastaður ferðamanna í Lundúnum og mörg hótel eru í nágrenninu sem og British Museum og University of London.

Xavery Richert, 22 ára franskur ferðamaður sem gistir á farfuglaheimili við torgið, segist hafa verið að kaupa bjór þegar hann heyrði konu hrópa og sá mann elta hana. Richert hélt að maðurinn væri vasaþjófur og sá að konan var ómeidd.

Í gær var greint frá því að lögreglan í Lundúnum myndi grípa til ráðstafana vegna ítrekaðra árása í Evrópu undanfarið og því yrði þungvopnuð lögregla meira áberandi í borginni. Venjulega er breska lögreglan ekki vopnuð á götum úti.

AFP

Talið er mjög líklegt að það verði gerð hryðjuverkaárás í borginni og hefur viðbúnaðarstig vegna mögulegrar ógnar verið hækkað. Á sunnudag skrifaði lögreglustjórinn í Lundúnum, Bernard Hogan-Howe, aðsenda grein í Mail on Sunday þar sem hann sagði að það væri ekki spurning um hvort árás yrði gerð heldur hvenær.

Frétt mbl.is: Kona látin eftir hnífaárás

AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert