FForsetaframbjóðandi Repúblíkanaflokksins í Bandaríkjunum, Donald Trump, lét til skarar skríða gegn innflytjendum í dag þegar hann lét þau orð falla við stuðningsmenn sína að Sómölum og öðrum flóttamönnum frá „hryðjuverkaþjóðum“ ætti ekki að vera heimilt að koma til Bandaríkjanna.
„Við höfum ekki hugmynd um hver þau eru. Þetta gæti verið stærsti Trójuhestur allra tíma,“ sagði Trump sem varnaðarorð um að hryðjuverkamenn, meðal annars á vegum hryðjuverkasamtakanna sem kenna sig við ríki íslams, muni reyna að lauma sér til Bandaríkjanna sem flóttamenn. „Þetta þarf að stöðva.“
Þá nefndi Trump dæmi um innflytjendur, flesta frá múslímskum ríkjum á borð við Afganistan, Írak, Pakistan og Marokkó auk fleiri landa, sem handteknir hafa verið vegna gruns um að hafa í hyggju að framkvæma ofbeldisfullar árásir eða með einum eða öðrum hætti stutt hryðjuverkahópa. „Þetta eru skepnur sem við erum að eiga við,“ sagði Tump.
Þá gagnrýndi Trump Hillary Clinton, líkt og hann hefur gert svo oft áður, fyrir að vilja hleypa flóttamönnum í þúsundavís inn í landið en Trump hefur meðal annars byggt kosningabaráttu sína á harðri andstöðu við innflytjendur.