Breytt heimsmynd gerir það að verkum að gömul hugmynd á aftur upp á pallborðið á norðurlöndunum. Forsendur fyrir norrænu sambandsríki hafa sjaldan verið jafngóðar. Þetta segir í leiðara Göteborgs-Posten í dag.
Í leiðarapistlinum er vitnað í skrif sagnfræðingsins og samfélagsrýnisins Gunnar Wetterberg, sem lengi hefur verið ötull talsmaður samnorræns sambandsríkis. Wetterberg segir að kostirnir við slíkt sambandsríki séu sterkari gjaldmiðill, sterkari efnahagur, stærri og sveigjanlegri vinnumarkaður, betra samstarf á sviði velferðarmála og aukin áhrif norrænu ríkjanna á vettvangi alþjóðastjórnmálanna.
„Útganga Breta úr Evrópusambandinu getur leitt til þess að fleiri ríki kjósa að ganga þá leið. Stuðningur við fríverslun fer dvínandi, evrópska myntsvæðið verður brátt að minningu einni. Þenslustefna Rússlands í utanríkismálum gerir kröfu um aukið samstarf norðurlandanna og flóttamannastraumurinn hefur haft áhrif á frjálsa för fólks innan norðurlandanna. Alþjóðavæðingin hefur leitt til vandamála sem þjóðríkin geta ekki leyst upp á sitt einsdæmi,“ segir í leiðaranum.
Þá eru rök færð fyrir því að vísir að samnorrænu yfirvaldi sé til staðar í gegnum Norðurlandaráð.
„Svo virðist sem fólk sé talsvert spennt fyrir nánara samstarfi norðurlandanna. Norðurlandaráðið lét árið 2010 gera skoðanakönnun sem sýndi að 42% af íbúum á norðurlöndunum voru jákvæðir gagnvart norrænu sambandsríki. Og á þeim tíma hafði Ísland ekki einu sinni keppt á EM,“ segir í léttum dúr í lok leiðarapistilsins.