Annar lögreglumannanna sem særðust í sveðjuárás í belgísku borginni Charleroi í dag er með djúp sár í andliti eftir árásina. Hinn er minna særður.
Árásarmaðurinn kallaði Allahu akbar á arabísku (Guð er mestur) er hann réðst vopnaður sveðju á tvær lögreglukonur fyrir utan höfuðstöðvar lögreglunnar í borginni. Hann var skotinn af þriðja lögreglumanninum og lést af völdum sára sinna. Hvorug kvennanna er í lífshættu.
Mikill öryggisviðbúnaður hefur verið í Belgíu mánuðum saman eða allt frá því sjálfsvígsárás var gerð á flugvellinum í Brussel og á lestarstöð skammt frá höfuðstöðvum Evrópusambandsins 22. mars. Alls létust 32 í árásunum en þær voru gerðar í nafni Íslamska ríkisins.
Ríkissaksóknari í Belgíu ákærði 33 ára gamlan mann, Nourredine H., fyrir nokkrum dögum fyrir aðild að hryðjuverkasamtökum og að hafa ætlað sér að fremja mannskæða árás. Flestir þeirra sem tóku þátt í hryðjuverkaárásunum í París í nóvember í fyrra komu frá Belgíu.