Norðurkóreskir geimvísindamenn vinna nú að fimm ára áætlun sem koma á fleiri gervihnöttum frá ríkinu á sporbaug um jörðu.
Á þó ekki að láta staðar numið þar, heldur vonast þeir til að senda geimfar til tunglsins og koma þar fyrir fána ríkisins á næstu 10 árum, er haft eftir háttsettum embættismanni innan norðurkóresku geimvísindastofnunarinnar.
„Jafnvel þó Bandaríkjamenn og bandamenn þeirra reyni að koma í veg fyrir geimferðaþróun okkar munu geimvísindamenn okkar sigra geiminn,“ segir Hyon Kwan-il, formaður rannsóknadeildar geimvísindastofnunarinnar.
Sérfræðingar segja ekki útilokað að geimáhugamennirnir norðurkóresku geti staðið við þessar yfirlýsingar. Þrátt fyrir að Bandaríkin hafi ein sent mönnuð för á tunglið hafa fleiri sent þangað ómönnuð för. The Guardian hefur eftir Jonathan McDowell, stjarneðlisfræðingi og sérfræðingi í gervihnöttum, að þótt það yrði mikil tæknileg framför gætu Kóreumenn ráðið við það.
Áhugi Norður-Kóreu á geimnum hefur aukist mjög á síðustu árum, en geimvísindastofnunin þarlenda var stofnuð 2013. Síðast sendi Asíuríkið gervihnött á sporbaug í febrúar á þessu ári, þegar Kwangmyongsong 4 var skotið á loft, en sérfræðingar hafa ekki getað staðfest að hann virki.