Tveir menn voru skotnir til bana með sjálfvirkum hríðskotabyssum um hábjartan dag í Marseille í morgun. Rannsakendur telja manndrápin tengjast uppgjöri í undirheimum borgarinnar.
Mennirnir voru hvor í sínum bílnum í miðborg Marseille í morgun þegar þriðji bíllinn ók í veg fyrir þá. Stukku fjórir menn úr bílnum með Kalashnikov-riffla og hófu að skjóta á mennina.
Annar maðurinn reyndi að flýja undan árásarmönnunum en var skotinn þegar hann var á hlaupum undan hópnum en hinn var undir stýri þegar hann var myrtur.
„Miðað við hvernig árásin var gerð er líklegt að þetta tengist uppgjöri á milli glæpagengja,“ sagði Andre Ribes, saksóknari í Marseille, og útilokaði að árásin hafi eitthvað með hryðjuverk að gera.
Lögregla telur hina látnu vera í kringum tvítugt en ekki er búið að bera kennsl á þá. Marseille er fjórða stærsta borg Frakklands og er töluvert um skipulagða glæpastarfsemi í borginni. Átján manns hafa verið skotnir til bana á þessu ári á Bouches-du-Rhone-svæðinu í kringum Marseille. Á sama tíma í fyrra var fjöldinn 13.