Yfirvöld í Tyrklandi sökuðu í dag ráðamenn Evrópusambandsins um að „hvetja áfram“ þá sem stóðu að misheppnaðri valdaránstilraun í Tyrklandi 15. júlí. Deilur tyrkneskra stjórnvalda við ráðamenn ESB hafa farið stigvaxandi frá valdaránstilrauninni og hafa vakið upp efasemdir um framtíðarsamskipti Tyrkja við ESB.
Degi eftir opinbera og mjög svo táknræna heimsókn Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseta til Rússlands sagði Mevlut Cavusoglu, utanríkisráðherra Tyrklands, að traust Tyrkja á ESB hefði beðið hnekki. ESB-ríkin hefðu „fallið á prófinu“ þegar valdaránstilraunin var gerð.
„Ég ætla að vera hreinskilinn, þetta er af því að ESB tók vel í valdaránstilraunina og hvatti áfram þá sem að henni stóðu,“ sagði ráðherrann í sjónvarpsávarpi, án þess að útskýra frekar við hvað hann ætti.
Cavusoglu sagði hafa dregið úr stuðningi við Evrópusambandsaðild innan Tyrklands um 20% frá valdaránstilrauninni.
Tengsl tyrkneskra stjórnvalda og ráðamanna ESB í Brussel hafa farið versnandi frá því að tyrkneska stjórnin efndi til herferðar gegn öllum þeim sem hún telur tengjast þeim er stóðu að valdaránstilrauninni. Tugþúsundir manna sem áður störfuðu í hernum, mennta- eða dómskerfinu hafa ýmist verið hneppt í gæsluvarðhald eða verið sagt upp störfum vegna meintra tengsla sinna við klerkinn Fethullah Gulen.
Ráðamenn ESB hafa hvatt tyrknesk stjórnvöld til að halda sig innan ramma laganna í aðgerðum sínum gegn meintum landráðamönnum. Þá hafa þau einnig fordæmt þá uppástungu Erdogans að Tyrkir taki upp dauðarefsingu að nýju.
Stjórnvöld í Tyrklandi hafa aftur á móti lýst yfir undrun sinni á að engir embættismenn ESB hafi heimsótt Tyrkland eftir valdaránstilraunina.
Cavusoglu sagði heimsókn Erdogan til Rússlands ekki hafa verið farna vegna þess að Tyrkir beini nú sjónum sínum meira til ríkja í austri.
„Samband okkar við Rússa eru ekki skilaboð til Vesturlanda. Við höfum sl. 15 ár lagt mikla vinnu í að eiga góð samskipti við ríki Evrópu. Ef Vesturlönd missa einhvern tímann samband sitt við Tyrkland – hverju sem líður sambandi okkar við Rússland og Kína – þá verður það þeim sjálfum að kenna.“
Aðild Tyrkja að Atlantshafsbandalaginu (NATO) er hins vegar ekki í hættu, þrátt fyrir versnandi samskipti ríkisins við ESB. Þetta staðfesti Oana Lungescu, talsmaður NATO, í dag og ítrekaði stuðning NATO við Tyrkland.
„Aðild Tyrkja að NATO er ekki í hættu,“ sagði Lungescu í yfirlýsingu sem sambandið sendi frá sér vegna vangaveltna fjölmiðla um að svo kynni að vera.
„NATO reiðir sig á áframhaldandi framlag Tyrklands og Tyrkland getur treyst á áframhaldandi samstöðu og stuðning NATO."