Sýknudómur í nauðgunarmáli í Noregi hefur vakið mikla umræðu í norsku samfélagi um réttaröryggi kvenna sem kæra fyrir kynferðisbrot. Þolandinn í málinu ákvað í kjölfar sýknu hinna þriggja meintu nauðgara að nafngreina þá og vakti sú ákvörðun mikla reiði í samfélaginu á meðan einhverjir studdu ákvörðun hennar.
Sjá frétt mbl.is: Mikil reiði vegna sýknudóms
Nú hefur önnur stúlka stigið fram og greint frá því að tveir hinna meintu gerenda hafi reynt að byrla henni og vinkonu hennar ólyfjan eftir bæjarferð í Osló árið 2013.
Í grein sem birtist á vef Dagbladet í dag segir hún sögu sína. Hún segist hafa verið í bænum að skemmta sér ásamt vinkonu sinni þegar þær hittu tvo af meintu gerendunum. Þeir töldu stelpurnar á að fara með sér í eftirpartí. Hægt og rólega fóru mennirnir að tala við þær á ágengari hátt og eftir smá stund tók vinkona stelpunnar eftir því að annar mannanna reyndi að setja eitthvert efni í drykkinn hennar, og þá yfirgáfu þær svæðið.
Sjá frétt mbl.is: Hætta af hræðslu við hótanir
„Það truflar mig að líf stúlkna eins og Andreu er sett á pásu í tvö ár. Hún hefur þurft að ganga í gegnum réttarhöld, yfirheyrslur og spurningaflóð frá verjendum um þá þrjá karlmenn sem brutu svona gegn henni umrætt kvöld. Hún þurfti að ganga í gegnum þetta allt saman og þarf að lifa með því það sem eftir er. Samt stendur hún uppi sem taparinn í þessu máli,“ skrifar stúlkan í pistli sínum.
Hún segist vona að mál Andreu verði til þess að fleiri munu kæra kynferðisbrot og vonast til þess að niðurstaðan verði öðruvísi í þeim málum.