Orrustan um Aleppo á eftir að dragast á langinn segja stjórnmálaskýrendur en á sama tíma er líf tveggja milljóna íbúa í hættu. Því á sama tíma og bitist er um sýrlensku borgina svelta íbúar hennar í hel.
Stríðið í Sýrlandi hefur staðið yfir á sjötta ár og bardagar hafa geisað í Aleppo, sem er önnur stærsta borg landsins, síðan árið 2012. Hún skiptist að mestu í tvennt: stjórnarherinn ræður yfir vesturhlutanum og uppreisnarmenn (her stjórnarandstæðinga) ræður yfir borginni í austri.
Innrásarherinn (Army of Conquest), sem árið 2015 hrakti stjórnarherinn á brott úr stórum hluta Idlib-héraðs, leikur lykilhlutverk í herafla stjórnarandstæðinga, það er uppreisnarmanna, í þessari baráttu um borgina gegn forseta Sýrlands, Bashar al-Assad, og her hans.
Í bandalagi uppreisnarhersins er að finna tugi hópa þar á meðal Fateh al-Sham Front, sem áður tengdist Al-Qaeda, og íslömsku vígasveitirnar Ahrar al-Sham.
Að sögn hernaðarsérfræðinga samanstendur hernaðarbandalagið af 30-40 þúsund vel þjálfuðum hermönnum, meðal annars þúsundum útlendra vígamanna. Hergögn þeirra eru heldur ekki af verri endanum, framleidd í Bandaríkjunum en tekin af sýrlenska hernum. En þrátt fyrir bandarísk vopn þá eru það bílsprengjur og sjálfsvígsárásir sem valda mestum ótta og ógn meðal andstæðinganna.
Sýrlenski herinn hefur yfir miklum mannafla að ráða - 30-40 þúsund hermönnum - sem einnig koma víða að, svo sem frá Íran, Írak og Hezbollah-liðar frá Líbanon. Eins er herinn vel vopnum búinn. Eins skiptir miklu máli stuðningur frá birninum í austri því Rússar verja stjórnarherinn úr lofti.
Það er mikið í húfi fyrir stríðandi fylkingar. „Uppreisnarmennirnir geta einfaldlega ekki yfirgefið bræður sína í stríðshrjáðri Aleppo,“ segir hernaðarsérfræðingurinn Fabrice Balanche.
„Fyrir herbúðir Assads þá þýðir endurheimt Aleppo að hægt verður að umkringja uppreisnarmenn í Idlib-héraði,“ bætir hann við.
Jafnframt yrði staða stjórnar Assads mjög sterk á alþjóðavísu ef hún nær Aleppo á sitt vald að nýju.