Rússneski herinn hefur flutt háþróað eldflaugavarnakerfi á Krímskaga. Í tilkynningu frá Rússum kemur fram að hersveitir á skaganum hafi fengið til sín glænýtt eldflaugavarnakerfi af gerðinni S-400.
Spenna á milli Úkraínu og Rússa hefur aukist að undanförnu vegna Krímskaga.
Öryggisþjónusta Rússa, FSB, greindi frá því á miðvikudag að hún hefði komið í veg fyrir „hryðjuverkaárásir“ á Krímskaga sem hún sagði að Úkraínumenn hefðu staðið á bak við.
Eldflaugavarnakerfið S-400 hefur einnig verið flutt til Sýrlands, þar sem Rússar hafa varpað sprengjum til stuðnings Bashar al-Assad, forseta Sýrlands.
Kerfið getur komið auga á um 300 skotmörk og skotið á fjórða tug eldflauga niður á sama tíma, af mörg hundruð kílómetra færi.