Bandaríski sundkappinn Michael Phelps lauk glæstum ólympíuferli sínum með gullverðlaunum í 4x100 metra fjórsundi með sveit Bandaríkjamanna á Ólympíuleikunum í Ríó í nótt. Þar með hefur Phelps unnið til 28 ólympíuverðlauna á ferlinum og eru 23 af þeim gullverðlaun. Hann er sigursælasti íþróttamaðurinn í sögu Ólympíuleikanna og kemst enginn annar með tærnar þar sem Phelps hefur hælana. Verðlaunin í nótt voru fimmtu gullverðlaun Phelps í Ríó en hann hlaut einnig silfurverðlaun fyrir 100 metra flugsund.
Frétt mbl.is - Phelps lauk ólympíuferlinum með sigri
Bob Bowman, þjálfari Phelps, var afar ánægður með Phelps eftir sundið í nótt og sagði sundmenn eins og hann afar fágæta. „Ég held að við eigum ekki eftir að sjá annan Michael,“ sagði Bowman og bætti við að sundmenn eins og Phelps kæmu kannski fram með tíu kynslóða millibili. „Það vinnur allt með honum. Hann er með líkamlega og andlega burði í þetta og svo styður fjölskyldan hann í þessu. Hann er afar sterkur andlega fyrir svona stórar keppnir og stendur sig betur undir pressu en ella,“ sagði Bowman.
Nicole Johnson, unnusta Phelps, fylgdist með honum í nótt ásamt þriggja mánaða gömlum syni þeirra, Boomer. Í viðtali við AFP-fréttaveituna vildi Phelps ekki gefa upp hvar hann geymir ólympíuverðlaunin en sagðist þó eflaust leyfa Boomer að taka einn gullpening með sér í skólann í framtíðinni til þess að sýna félögunum.
Phelps sem er 31 árs gamall tók fyrst þátt á Ólympíuleikunum í Sydney í Ástralíu árið 2000. Þá vann hann ekki til neinna verðlauna. Á Ólympíuleikunum í Aþenu árið 2004 vann hann til sex gullverðlauna og bætti síðan átta verðlaunum við í Peking fjórum árum síðar. Hann vann síðan til fernra gullverðlauna í London fyrir fjórum árum en fékk nóg eftir þá leika og tilkynnti þá að hann ætlaði að hætta í sundinu.
Hann var þó ekki lengi frá og tók upp þráðinn á ný við æfingar fyrir tveimur árum. Fljótlega eftir endurkomu sína var Phelps dæmdur í sex mánaða keppnisbann af bandaríska sundsambandinu er hann var tekinn fyrir ölvunarakstur. Eftir það fór Phelps að vinna í sínum málum og lagðist inn á meðferðarheimili. Meðan á dvölinni stóð endurnýjaði hann kynnin við föður sinn sem hann hafði ekki verið í sambandi frá því að foreldar hans skildu í æsku.
Tilfinningarnar voru blendnar þegar Phelps steig ofan í sundlaugina í Ríó í nótt og segist Phelps í raun hafa verið að springa úr spennu. „Svona vildi ég enda ferilinn minn. Ég hef upplifað drauminn og að geta endað hann svona er fullkomið,“ sagði Phelps að sundi loknu.