Tyrkir ósáttir við Wallström

Utanríkisráðherra Svíþjóðar, Margot Wallström.
Utanríkisráðherra Svíþjóðar, Margot Wallström. AFP

Tyrknesk yfirvöld hafa stefnt sendiherra Svíþjóðar á fund í utanríkisráðuneytinu vegna ummæla utanríkisráðherra Svíþjóðar, Margot Wallström, á Twitter um að Tyrkir hefðu lögleitt kynlíf með börnum.

Utanríkisráðherra Tyrklands, Mevlut Cavusoglu, sagði í sjónvarpsviðtali í dag að hann hefði óskað eftir því að sendiherrann kæmi á sinn fund þar sem honum yrði veitt tiltal vegna ummæla Wallström á opinberum aðgangi hennar á Twitter. Þar sagði hún að ákvörðun tyrkneskra yfirvalda um að leyfa kynlíf með börnum yngri en fimmtán ára væri afturför. Stjórnlagadómstóll landsins staðfesti ákvörðun ríkisins um að heimila hjónabönd barna yngri en fimmtán ára í síðustu viku.

 

Cavusoglu segir að það sé hneyksli að utanríkisráðherra skuli birta tíst sem byggist á fölsuðum fréttum eða tilgátum. Um ábyrg skrif ráðherrans hafi verið að ræða og því hafi sendiherra Svíþjóðar verið boðaður á fund. „Utanríkisráðherra á ekki að ljúga og á ekki að birta óviðeigandi tilgátur gegn Tyrklandi,“ segir Cavusoglu.

Æðsti dómstóll Tyrklands ógilti ákvæði laga um að refsa ætti fyrir allt kynlíf með börnum yngri en fimmtán ára líkt og um kynferðislegt ofbeldi væri að ræða. Þingið hefur nú hálft ár til þess að setja þetta í lög. 

Frétt Svenska dagbladet

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert