Ris og fall Brasilíu

Andstæðingur Dilmu Rousseff forseta veifar brasilískum fánum fyrir utan þinghús …
Andstæðingur Dilmu Rousseff forseta veifar brasilískum fánum fyrir utan þinghús landsins. AFP

Fyrir örfáum árum virtist Brasilía standa með pálmann í höndunum sem vaxandi efnahagslegt og pólitískt stórveldi. Undanfarin misseri hefur hins vegar glundroði ráðið ríkjum í formi pólitískra spillingarmála og efnahagsþrenginga sem leiddu til þess að þing landsins samþykkti að ákæra Dilmu Rousseff forseta.

Í tíð Luiz Inacio Lula da Silva, forvera Rousseff í embætti forseta Brasilíu og samflokksmanns hennar í Verkamannaflokknum, öðlaðist landið langþráðan efnahagslegan stöðugleika. Landið naut góðs af uppgangstímum á markaði með verslunarvöru og auknum útflutningi sem hélst í hendur við aukna neyslu stækkandi millistéttar.

Rousseff tók við völdum í byrjun árs 2011 en árið áður hafði hagvöxtur í Brasilíu mælst sá mesti í þrjá áratugi eftir að Lula hafði eytt ríkisfé í að örva hagkerfið í fjármálakreppunni sem gekk yfir heiminn. Segja má að fræjum falls Rousseff hafi verið sáð á þeim tíma.

Dilma Rousseff, forseti Brasilíu sem sett hefur verið af tímabundið.
Dilma Rousseff, forseti Brasilíu sem sett hefur verið af tímabundið. AFP

Verðbólga í tvegga stafa tölu

Með útgjaldaaukanum til að komast út úr kreppunni urðu fjárlög ríkisins ósjálfbær en til að bæta gráu ofan á svart byrjaði verð á verslunarvöru að falla og stjórnvöld léku afleiki á árunum á eftir að mati Paulo Vieira da Cunha, fyrrverandi varaseðlabankastjóra landsins.

Stýrivextir voru lækkaðir sem aldrei fyrr og fyrirtæki fengu ríflegar skattalækkanir auk þess sem Rousseff lét hækka eftirlaun. Fjárlagahalli ríkisins hækkaði um 2% af vergri landsframleiðslu (VLF) árið 2010 í 10% árið 2015, að því er kemur fram í umfjöllun The Economist frá því í janúar.

Frétt mbl.is: Samþykktu réttarhöld yfir Rousseff

Þegar verð á matvælum, samgöngum og húsnæði rauk upp í fyrra náði verðbólga hæstu hæðum sem hún hafði náð í þrettán ár og mældist 10,67%. Stjórnvöld þurftu einnig að glíma við skuldir sem námu um 70% af VLF. Seðlabankinn hefur hins vegar ekki getað brugðist við með því að hækka stýrivexti því að aukinn vaxtakostnaður myndi sliga ríkissjóð enn frekar.

Öldungadeildarþingmenn í brasilíska þinginu fagna eftir að ákæra á hendur …
Öldungadeildarþingmenn í brasilíska þinginu fagna eftir að ákæra á hendur Dilmu Rousseff var samþykkt á þriðjudag í síðustu viku. AFP

Veittu milljörðum til flokksins og í eigin vasa

Á sama tíma hefur umfangsmikið spillingarmál sem tengist ríkisolíufélaginu Petrobras kraumað undir og aukið andúð almennings á Rousseff og stjórn hennar. Petrobras er að mestu leyti í eign ríkisins en almennir hluthafar eiga einnig hluti í því.

Verkamannaflokkurinn tilnefndi trúnaðarmenn sína í stjórn fyrirtækisins og í kjölfarið hafa verið uppi háværar ásakanir um að þeir hafi veitt milljörðum dollara af verktakasamningum sem Petrobras gerði til flokksins. Stjórnarandstaðan heldur því fram að féð hafi verið notað til þess að fjármagna kosningabaráttu Verkamannaflokksins.

Stjórnendurnir sjálfir eru einnig sakaðir um að hafa skarað eld að köku sinni og safnað allt að 100 milljón dollurum á svissneska bankareikninga.

Fangelsisdómar hafa þegar fallið, þar á meðal yfir João Vaccari, fyrrverandi gjaldkera Verkamannaflokksins, vegna mútuþægni, peningaþvættis og spillingar í tengslum við hneykslið, sem hefur þó enn ekki verið til lykta leitt að fullu.

Rousseff hefur ekki verið sökuð um glæpi sem tengjast Petrobras en hún var hins vegar stjórnarformaður fyrirtækisins frá 2003 til 2010, áður en hún varð forseti.

Merki ríkisolíufyrirtækisins Petrobras utan á höfuðstöðvum þess í Ríó de …
Merki ríkisolíufyrirtækisins Petrobras utan á höfuðstöðvum þess í Ríó de Janeiro. AFP

Sökuð um að koma Lula undan ákæru

Í kvikmyndinni The Dark Knight um ævintýri Leðurblökumannsins lætur saksóknarinn Harvey Dent þau fleygu orð falla að annaðhvort deyi menn sem hetjur eða lifi nógu lengi til að sjá sjálfa sig verða að skúrkinum.

Lula, fyrrverandi forsetinn sem leiddi efnahagsuppgang Brasilíu á sínum tíma, er einn þeirra sem hafa verið bendlaðir við Petrobras-hneykslið. Lögreglan gerði húsleit á heimili Lula í mars og hefur hann verið til rannsóknar vegna aðildar að mútugreiðslunum.

Frétt mbl.is: Rousseff í enn meira klandri

Rousseff hefur verið sökuð um að reyna að hindra rannsókn á spillingu samflokksmanna sinna og annarra stjórnmálamanna í kringum olíurisann en alvarlegustu ásakanirnar komu í kjölfar rannsóknarinnar á Lula.

Forsetinn tilnefndi Lula í ríkisstjórnina sem forsetaritara og benti ýmislegt til þess að eini tilgangurinn með því hefði verið að vernda hann fyrir ákæru, þar sem fulltrúar í ríkisstjórn njóta friðhelgi á meðan þeir gegna embætti. Rousseff hefur legið undir ámæli fyrir að hafa með þessu reynt að hindra framgang réttvísinnar. Hæstiréttur landsins ógilti skipan Lula í embætti.

Luiz Inacio Lula da Silva, fyrrverandi forseti, er einn þeirra …
Luiz Inacio Lula da Silva, fyrrverandi forseti, er einn þeirra sem bendlaður er við Petrobras-hneykslið. AFP

Segja endurkjörið hafa byggst á bókhaldsbrellum

Það er þó ekki Petrobras-málið sem varð til þess að brasilíska þingið samþykkti að ákæra Rousseff forseta í síðustu viku. Ákæruna má í raun rekja til efnahagsþrenginga síðustu missera, sem gagnrýnendur stjórnarinnar segja að gæti orðið þær verstu frá 4. áratug síðustu aldar áður en yfir lýkur.

Rousseff er þannig gefið að sök að hafa hagrætt ríkisbókhaldinu til þess að fela vaxandi fjárlagahalla ríkissjóðs. Sjálf segir hún hins vegar að reikningsskilaaðferðinni hafi lengi verið beitt í Brasilíu og hún sé ekki tilefni til embættismissis.

Stuðningsmaður Rousseff mótmælir stjórn varaforsetans Michels Temer.
Stuðningsmaður Rousseff mótmælir stjórn varaforsetans Michels Temer. AFP

Andstæðingar forsetans fullyrða hins vegar að bókhaldsbrellurnar hafi gert henni kleift að ná endurkjöri árið 2014. Stuðningsmenn Rousseff benda á móti á að stjórnmálamennirnir sem kusu að ákæra hana séu margir hverjir sjálfir viðfangsefni rannsókna á mútuþægni í tengslum við Petrobras.

Réttarhöldin yfir Rousseff eiga að hefjast nokkrum dögum eftir að Ólympíuleikunum í Rio de Janeiro lýkur en í millitíðinni gegnir varaforsetinn Michel Temer embætti forsetans tímabundið. Ef svo fer að Rousseff verði fundin sek gegnir hann embættinu út kjörtímabilið. Hans bíður þá það verk að koma Brasilíu aftur á beinu brautina sem landið hefur villst út af á undanförnum árum.

Umfjöllun Bloomberg um fjármál Brasilíu

Umfjöllun Financial Times um Petrobras-hneykslið

Umfjöllun The Economist um efnahagsþrengingar Brasilíu

Frétt Reuters um ákæruna á hendur Rousseff

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert