Ástalir samþykkja að loka búðunum á Manus

Innflytjendastefna ástralskra stjórnvalda er umeild og hefur búðum hælisleitenda á …
Innflytjendastefna ástralskra stjórnvalda er umeild og hefur búðum hælisleitenda á Manus og Nauru oft verið mótmælt. Áströlsk stjórnvöld hafa nú samþykkt að loka búðunum á Manus. AFP

Áströlsk stjórnvöld hafa fallist á að loka umdeildum búðum hælisleitenda á eyjunni Manus í Papúa Nýju-Gíneu. 

Í yfirlýsingu frá Peter O'Neill, forsætisráðherra Papúa Nýju-Gíneu, segir að hann hafi fundað með Peter Dutton, innflytjendaráðherra Ástralíu, í dag og að þjóðirnar séu sammála um að loka búðunum.

Hæstiréttur Papúa Nýju-Gíneu úrskurðaði í apríl að búðirnar brytu gegn stjórnarskrárvörðum réttindum fólksins sem þar dvelur.

Búðunum verður þó ekki lokað strax, að því er fréttavefur BBC hefur eftir O‘Neill, en 854 karlar dvelja þar nú. „Það er verið að þróa nokkrar leiðir og það þarf að koma þeim í framkvæmd,“ sagði O‘Neill. „Það er mikilvægt að ferlinu sé ekki flýtt heldur sé vandað til verka.“

Bæði þurfi að líta til hagsmuna heimamanna og eins að tryggja velferð hælisleitenda og flóttamanna.

Yfirvöld í Ástralíu senda þá hælisleitendur sem koma sjóleiðina til landsins  aftur úr landi og í búðir á Manus og á eyjunni Nauru. Jafnvel þeir sem sannanlega reynast vera flóttamenn fá ekki leyfi til að setjast að í Ástralíu.

Enginn fær að setjast að í Ástralíu

Dutton segir í yfirlýsingu sinni að áströlsk stjórnvöld hafi átt í löngum viðræðum við stjórnvöld Papúa Nýju-Gíneu um lokun búðanna á Manus og nýja lausn fyrir flóttamenn.

„Okkar afstaða, sem var enn og aftur staðfest í dag við Papúa Nýju-Gíneu, er að enginn úr búðunum á Manus mun nokkurn tímann fá að setjast að í Ástralíu,“ sagði í yfirlýsingunni.

Meðferð ástralskra stjórnvalda á hælisleitendum komst í sviðsljósið fyrr í þessum mánuði er skýrslu yfir 2.000 atvik sem komu upp í búðum hælisleitenda á Nauru var lekið í fjölmiðla. Þar var greint frá kynferðislegu ofbeldi, barnaníði og sjálfsskaða og eru atvikaskýrslurnar sagðar vera aðeins toppurinn á ísjakanum.

 Saumaði saman á sér varirnar

Ætla að loka búðum hælisleitenda

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert