Forseti handtekinn fyrir miðabrask í Ríó

Miðar merktir írsku ólympíunefndinni sem fundust á Kevin Mallon á …
Miðar merktir írsku ólympíunefndinni sem fundust á Kevin Mallon á opnunardegi Ólympíuleikanna í Ríó. AFP

Lögreglan í Brasilíu hefur handtekið Patrick Hickey, forseta evrópsku ólympíunefndarinnar, sem einnig situr í Alþjóðlegu ólympíunefndinni. Hann er sakaður um að hafa lagt á ráðin um að selja miða sem Írum voru úthlutaðir á leikana í Ríó með ólöglegum hætti. 

Írinn Patrick Hickey hefur setið í framkvæmdastjórn Alþjóðlegu ólypmpíunefndarinnar frá árinu 2012. Hann er jafnframt forseti írsku ólympíunefndarinnar. Lögreglan hefur lagt hald á yfir þúsund miða sem seldir voru á uppsprengdu verði en þeim hafði verið úthlutað til Íra.

Breska ríkisútvarpið BBC hefur eftir lögreglu að Hickey hafi reynt að flýja þegar lögreglumenn komu til að handtaka hann. Hickey er 71 árs gamall og er sagður hafa veikst í kjölfarið. Liggur hann nú á sjúkrahúsi.

Talið er að mál Hickey tengist handtöku annars Íra, Kevin James Mallon, á opnunardegi Ólympíuleikanna. Mallon er framkvæmdastjóri fyrirtækis sem er sakað um að hafa selt miða á leikana ólöglega. Um 800 miðar fundust á Mallon þegar hann var handtekinn. Lögreglan telur að þeir hafi verið seldir á allt að 7.800 dollara hver, rúmar 900.000 íslenskar krónur miðað við núverandi gengi. Fyrirtæki hans er einnig sakað um að hafa selt miða ólöglega á heimsmeistaramótið í knattspyrnu fyrir tveimur árum.

Frétt BBC

Patrick Hickey, forseti evrópsku ólympíunefndarinnar.
Patrick Hickey, forseti evrópsku ólympíunefndarinnar. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert