Stúlkan sagðist heita „hálfviti“

Ljósmynd/Hot Springs Police Department

Hún var með fjólubláa marbletti, glóðurauga, bólginn kjálka og áverka á enninu. Á baki hennar voru sár sem áttu eftir að gróa almennilega. Í munnvikinu var þornað blóð og úlnliðir hennar báru þess merki að hún hefði verið bundin. Þegar lögreglumaður spurði stúlkuna, sem er fjögurra ára gömul, hvað hún heitir svaraði hún: „Hálfviti.“

Stúlkan var ekki að reyna að sýna lögreglumanninum ókurteisi. Hún er vön því að sambýlismaður móður hennar kalli hana þetta, í stað þess að nota nafn hennar.

Móðir stúlkunnar og sambýlismaður hennar hafa verið ákærð fyrir heimilisofbeldi og vanrækslu. Lögreglu barst tilkynning um málið á föstudaginn en grunur lék á að stúlkan hefði verið beitt ofbeldi á heimili sínu.

Konan sagði í yfirheyrslum hjá lögreglu að hún hefði séð sambýlismann sinn berja stúlkuna með plastkylfu. Þá sagðist hún reglulega hafa heyrt hann kalla stúlkuna hálfvita. Hún viðurkenndi einnig að hafa ekki farið með stúlkuna til læknis þrátt fyrir áverka sem hún hlaut vegna ofbeldisins. Maðurinn hefur viðurkennt að hafa límt barnið við rúm til að refsa henni fyrir að klifra á eldhússkápunum.

Fjölskyldan býr í Hot Springs í Bandaríkjunum. Lögregla þar sagði í samtali við fjölmiðla að sex börn hafi búið á heimilinu, allt börn konunnar. Yngsta barnið, sem er ellefu mánaða gamalt, á hún með sambýlismanninum. Stúlkan og yngsta barnið eru í umsjón barnaverndaryfirvalda en hin fjögur dvelja hjá líffræðilegum föður sínum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert