Hrotti handtekinn í Kaupmannahöfn

Danska lögreglan.
Danska lögreglan. Wikipedia/Heb

Tæplega þrítugur maður hefur verið úrskurðaður í gæsluvarðhald í Kaupmannahöfn fyrir árás á konu sem var að hlaupa árla morguns í borginni. Maðurinn hefur verið kærður fyrir morðtilraun og nauðgun.

Konan, sem er 38 ára gömul, fór að heiman milli 4:30 og 5 á þriðjudagsmorguninn í Østerbro-hverfinu. Þegar hún skilaði sér ekki heim hafði fjölskylda hennar samband við lögreglu og þrátt fyrir leit fannst hún ekki fyrr en níu klukkustundum síðar (klukkan 15) þegar einn úr fjölskyldu hennar fann hana meðvitundarlausa á bak við runna við fótboltavöll skammt frá heimili hennar.

Konan var flutt á gjörgæsludeild þar sem henni var haldið sofandi. Það var ekki fyrr en mörgum klukkustundum síðar að hún var úrskurðuð úr lífshættu.

Lögregla leitaði til almennings um aðstoð á þriðjudagskvöldið og snemma í gærmorgun var 29 ára karl handtekinn en hann hafði sést á myndum úr eftirlitsmyndavélum á svæðinu þar sem árásin var framin.

Talsmaður lögreglunnar í Kaupmannahöfn, Hans Erik Raben, greindi frá því síðdegis í gær að maðurinn hafi verið kærður fyrir morðtilraun og nauðgun. Konan var illa lemstruð og fáklædd þegar hún fannst. Hún var við dauðans dyr þegar hún fannst, segir lögreglan.

Ritzau-fréttastofan greinir frá því að lögreglan telji að maðurinn hafi reynt að kyrkja konuna eftir að hafa slegið hana ítrekað í höfuð og andlit. Talið er að henni hafi verið nauðgað eftir að hún missti meðvitund.

Frétt Ekstrabladet

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert