„Hvaða skoðanakannanir?“

Donald Trump mælist með níu prósentustigum minna fylgi en Hilary …
Donald Trump mælist með níu prósentustigum minna fylgi en Hilary Clinton í skoðanakönnunum að undanförnu. AFP

Furðuleg orðaskipti fréttakonu CNN og lögfræðings sem vinnur fyrir kosningabaráttu Donalds Trump í vikunni hafa vakið töluverða athygli. Lögfræðingurinn vefengdi fullyrðingu fréttakonunnar að Trump væri undir í baráttunni við Hillary Clinton en hún vísaði á móti í skoðanakannanir. 

Michael Cohen, lögfræðingur hjá framboði Trump, svaraði spurningum fréttakonunnar Briönnu Keilar á CNN um uppstokkun á starfsliði framboðsins í gær. Hann tók það hins vegar óstinnt upp þegar Keilar vísaði til þess að Trump væri undir.

„Segir hver? Segir hver?“ spurði Cohen ergilegur.

„Skoðanakannanir. Flestar þeirra. Þær allar?“ svaraði Keilar sjáanlega hissa á að Cohen skildi þræta fyrir þá staðreynd.

Cohen var hins vegar ekki af baki dottinn.

„Segir hver?“ spurði lögfræðingurinn aftur.

„Skoðanakannanir. Ég var að segja þér það. Ég svaraði spurningu þinni!“

„Allt í lagi. Hvaða skoðanakannanir?“ sagði Cohen.

„Þær allar,“ svaraði Keilar aftur.

„Allt í lagi. Og hver er spurningin?“

Vefritið Vox bendir á að Hillary Clinton hafi mælst með forystu í þeim 23 skoðanakönnunum sem gerðar hafa verið á landsvísu undanfarnar þrjár vikur. Hún mælist að meðaltali með níu prósentustiga forskot á Trump. Ekki sé ljóst hvað hafi vakað fyrir Cohen með því að draga þetta í efa enda hafi hann ekki haft neitt til að bæta við það.

Frétt mbl.is: Hrókeringar í framboði Trump

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert