Thomas de Maiziere, innanríkisráðherra Þýskalands, lýsti í dag stuðningi við að búrkur yrðu bannaðar að hluta, en hart er nú deilt í Þýskalandi um aðlögun innflytjenda.
„Við erum sammála um að við höfnum búrkunni. Við erum sammála um að við viljum festa í lög að fólk verði að sýna andlit sitt á þeim stöðum þar sem það gæti talist nauðsynlegur hluti af friðsamlegri sambúð – við akstur, á opnum skrifstofum, á skráningarstofunni, í skólum og háskólum, í þjónustu hins opinbera og hjá dómstólum,“ sagði de Maiziere eftir að hafa fundað með innanríkisráðherrum íhaldssamra sambandsfylkja landsins.
Blæja sem hylur andlitið að fullu ætti ekki heima í alþjóðlegu samfélagi Þýskalands. „Við viljum sýna hvert öðru andlitið og þess vegna höfnum við þessu – spurningin er hvernig festum við þetta í lög,“ sagði de Maiziere í viðtali við þýska sjónvarpsstöð.
Bann við búrkunni við ákveðnar aðstæður í stað þess að banna hana með öllu, líkt og kristilegir demókratar Angelu Merkel Þýskalandskanslara hafa viljað gera, væri líklegra til að hljóta samþykki þingsins.
Samsteypustjórn Merkel er með sterkan meirihluta í neðri deild þýska þingsins. Hugmynd de Maizier um að banna búrkuna á vissum stöðum er viss málamiðlun sem gæti höfðað til íhaldssamra kjósenda í kosningum sem haldnar verða í tveimur sambandsfylkjum Þýskalands í næsta mánuði. En skoðanakannanir hafa bent til þess að hægri öfgaflokkurinn AfD bæti þá verulega stöðu sína.
De Maiziere hafnaði í síðustu viku beiðni innanríkisráðherra íhaldssamra sambandsfylkja um að bann yrði lagt við búrkunni. „Við getum ekki bannað allt það sem við höfnum og ég hafna búrkunni,“ sagði de Maiziere er hann kynnti í síðustu viku harðari aðgerðir gegn hryðjuverkum í landinu, í kjölfar tveggja árása sem hryðjuverkasamtökin Ríki íslams lýstu sig ábyrg fyrir í síðasta mánuði.
Meðal þeirra aðgerða sem lagt er til að heimila er að svipta þá sem taka þátt í heilögu stríði þýskum ríkisborgararétti og að senda dæmda glæpamenn úr röðum hælisleitenda úr landi með hraði.