Lík átta manns sem var rænt í mexíkóska bænum Alto Lucero í Veracruz-ríki í gær fundust í dag. Frá þessu greindu yfirvöld. Saksóknarar segja morðingjana enn leika lausum hala en af fórnarlömbunum voru sjö þeirra karlar og ein kona.
Heimildarmaður AFP innan mexíkósku lögreglunnar segir að morðingjarnir hafi ráðist inn á nokkur heimili í bænum í gær, rænt þaðan raftækjum og öðrum verðmætum áður en þeir höfðu fólkið með sér á brott. Lögreglan fann í kjölfarið tólf bifreiðar sem talið er að árásarmennirnir hafi notað við verknaðinn.
Veracruz er ríkt að olíu en þar er tíðni ofbeldis með því mesta sem gerist í Mexíkó. Ríkið er eins konar stríðsvettvangur tveggja glæpagengja; Los Zetas og nýrrar kynslóðar Jalisco-hópsins, sem berjast um yfirráð yfir eiturlyfjasmygl-leiðum til Bandaríkjanna.
Eftir að ríkisstjórn Mexíkó boðaði hertar aðgerðir gegn fíkniefnagengjum í landinu árið 2006, m.a. með auknum afskiptum hersins, hafa 166 þúsund manns látið lífið og 27 þúsund til viðbótar horfið samkvæmt tölum hins opinbera.