Kosning til formanns breska Verkamannaflokksins hófst í dag en mikil átök og klofningur hefur verið innan flokksins um framtíð formannsins Jeremys Corbyn. Kjörgögn voru send flokksmönnum í dag en flokksmenn hafa til 21. september til að gera upp á milli hans og þingsmannsins Owens Smith.
Verkamannaflokkurinn hefur logað stafnanna á milli undanfarið, ekki síst í kjölfar Brexit-þjóðaratkvæðagreiðslunnar þegar margir þingmenn flokksins töldu Corbyn ekki hafa beitt sér nógu afdráttarlaust fyrir áframhaldandi veru Breta í Evrópusambandinu. Því samþykktu 80% þingmannanna vantrauststillögu á hendur Corbyn.
Corbyn er talinn líklegri til að sigra en Smith. Hann nýtur enn stuðnings flestra verkalýðsfélaganna og nýrra flokksmanna sem tryggðu honum óvænt sigur í formannskjörinu í fyrra. Ýmsir frammámenn innan flokksins eins og Sadiq Khan, borgarstjóri í London, og Kezia Dugdale, leiðtogi Verkamannaflokksins í Skotlandi, hafa hins vegar lýst yfir stuðningi við Smith.
Smith lýsti yfir framboði sínu í síðasta mánuði og sagði þá áframhaldandi forystu Corbyn auka líkurnar verulega á að flokkurinn klofni í herðar niður. Hann hefur líkt og Corbyn biðlað til vinstri arms flokksins og lofað raunsærri sósíalískri byltingu á Bretlandi.
Kosningabaráttan hefur verið nokkuð hatrömm fram að þessu. Kappræður á milli Corbyn og Smith hafa einkennst af bauli, fagnaðarlátum og frammíköllum áhlýðenda. Þá hafa stuðningsmenn Corbyn verið sakaðir um að beita ógnunum sem hafa leitt til þess að fresta hefur þurft fundum flokksins á sumum stöðum.
Flokksmönnum í Verkamannaflokknum hefur fjölgað mjög eftir að Corbyn tók við embætti formanns. Um 640.000 manns hafa kosningarétt í formannskjörinu. Fyrr í þessum mánuði komst dómstóll hins vegar að þeirri niðurstöðu að 130.000 nýir flokksmenn sem gengu í flokkinn á sex mánaða tímabili til 12. júlí hafi ekki atkvæðisrétt.
Skoðanakönnun YouGov frá því í síðustu viku bendir til þess að Íhaldsflokkurinn hafi átta prósentustiga forskot á Verkamannaflokkinn um þessar mundir.