Leggja lokahönd á friðarsamninga

Juan Manuel Santos, forseti Kólumbíu, segir verið að leggja lokahönd …
Juan Manuel Santos, forseti Kólumbíu, segir verið að leggja lokahönd á friðarsamninga við Farc. AFP

Juan Manuel Santos, forseti Kólumbíu, tilkynnti í dag að samningamenn kólumbískra stjórnvalda og Farc-uppreisnarhópsins vinni nú að lokafrágangi sögulegs samnings.

Búist er við að tilkynning verði send út síðar í dag að sögn fréttavefjar BBC, en sögulegar friðarviðræður deiluaðila hafa staðið yfir í á fjórða ár.

Kólumbíustjórn og Farc undirrituðu samkomulag í júní um tvíhliða vopnahlé sem hefur greitt fyrir gerð endanlegs friðarsamnings.

„Ég vonast til þess að geta sagt þjóðinni sögulegar og mjög mikilvægar fréttir í dag,“ sagði Santos.

Leiðtogi Farc, Timoleon Jimenez, betur þekktur sem Timochenko, sendi frá sér Twitter-skilaboð: „Klukkan sex í kvöld munum við tilkynna lok friðarviðræðnanna og niðurstöður friðarsamkomulagsins. Frá Havana vil ég deila með íbúum Kólumbíu ánægju minni með að við höfum náð þessum áfanga.“

Friðarsamn­ing­ur­inn gæti markað enda­lok á hálfr­ar ald­ar átök­um á milli kól­umb­ískra stjórn­valda og upp­reisn­ar­manna. Um 220 þúsund manns hafa látið lífið í átök­un­um og næst­um sjö millj­ón­ir manna neyðst til þess að leggja á flótta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert