Ein kona og tveir karlmenn liggja í valnum eftir lásbogaárás í Toronto í Kanada í dag, að því er kemur fram á vef breska ríkisútvarpsins. Maðurinn sem liggur undir grun er í haldi lögreglu.
Lögreglumenn fóru á vettvang eftir að tilkynning barst um stunguárás. Tveir fundust látnir á vettvangi og sá þriðji lá særður. Hann lést síðar af sárum sínum.
Þá kom í ljós að fórnarlömbin hlutu sárin af lásbogaörvum og fannst lásbogi skammt frá. Engin leyfi þarf til að kaupa eða eiga lásboga í Kanada. Að sögn lögreglufulltrúa er ásetningurinn enn óljós.
Skömmu síðar rýmdi lögreglan byggingu í borginni vegna grunsamlegs pakka. Talið er að málin séu tengd en lögreglan gefur ekki meira upp um tengslin.