Fundu kókaín í Coca-Cola verksmiðju

AFP

Kókaín að verðmæti fimmtíu milljónir evra, eða rúmlega 6,5 milljarðar króna, hefur fundist í Coca-Cola verksmiðju í Frakklandi. Vímuefnin, sem fundust falin í pokum innan um ávaxtasafaþykkni, komu til landsins í gámi frá Suður-Ameríku.

Rannsókn er hafin á málinu í þorpinu Signes í Suður-Frakklandi. Alls fundust 370 kílógrömm af kókaíni og er fundurinn því einn sá stærsti í sögunni á franskri grundu.

Búið er að útiloka aðkomu starfsmanna verksmiðjunnar en rannsakendur reyna nú að finna út nákvæmlega hvar efnið á uppruna sinn, samkvæmt frétt BBC.

Upphafleg uppskrift Coca-Cola, sem samin var árið 1886 af bandaríska lyfjafræðingnum John Pemberton, er talin hafa innihaldið snefilmagn af kókaíni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert