Aðstoðarráðherra menntamála í Norður-Kóreu, Kim Yong-Jin, var tekinn af lífi fyrir að sýna leiðtoga landsins, Kim Jong-Un vanvirðingu. Tveir aðrir embættismenn hafa einnig verið sendir í endurhæfingarbúðir. Ráðamenn í Suður-Kóreu greindu frá þessu í dag.
Frá því Kim tók við sem leiðtogi N-Kóreu við fráfall föður síns árið 2011 er talið að hann hafi látið taka ótilgreindan fjölda háttsettra manna af lífi eða sent þá í endurhæfingu í þrælkunarbúðir. Þykir þetta til marks um að hann vilji herða tökin og tryggja sig í sessi sem leiðtogi þjóðarinnar.
Talsmaður samræmingarráðuneytisins í Seúl, Jeong Joon-Hee, greindi frá aftökunni í dag en hann segir að Kim Yong-Jin hafi verið tekinn af lífi af aftökusveit í júlí.
Kim Yong-Jin var tekinn af lífi fyrir það hvernig hann hegðaði sér í sæti sínu fyrir neðan ræðustól á þingi Norður-Kóreu. Þegar málið var rannsakað frekar kom í ljós að hann hafði gerst sekur um fleiri glæpi. Samkvæmt fréttum fjölmiðla í S-Kóreu virðist glæpur hans á þingi hafa falist í því að hafa sofnað á fundi með leiðtoganum og verið handtekinn á staðnum.