Íbúar „hreinsa upp“ Pusher-stræti

Íbúar létu til skarar skríða í Pusher-stræti í morgun.
Íbúar létu til skarar skríða í Pusher-stræti í morgun. AFP

Íbúar í Kristjaníu í Danmörku hafa hafið að ryðja burt sölubásum í Pusher-stræti, en þar fer kannabissala fram undir berum himni. Ákvörðunin um að hreinsa götuna var tekin eftir langan íbúafund í gær.

Tilefni fundarins var skotárás sem gerð var á lögreglu þegar hún gerði tilraun til að handtaka fíkniefnasala í Pusher-stræti. Árásarmaðurinn, Mesa Hodzic, skaut tvo lögreglumenn og einn vegfaranda og liggur annar lögreglumaðurinn þungt haldinn á sjúkrahúsi.

Frétt mbl.is: Árásarmaðurinn látinn

Talsmaður íbúa sagði í samtali við TV2 að Kristjaníubúar myndu gera tilraun til að „loka Pusher-stræti“ og hefja aðgerðir í dag. Talið er að fíkniefnasala í götunni velti milljörðum króna á ári hverju.

Íbúarnir höfðu áður biðlað til fólks um að hætta að kaupa kannabis á markaðnum í Pusher-stræti.

„Við fordæmum sterklega glæpastarfsemina sem fylgir kannabismarkaðnum. Kristjanía getur ekki axlað þá ábyrgð að hýsa alla kannabissölu Danmörku,“ hefur thelocal.dk eftir talsmanninum, Risenga Manghezi.

„Við getum fjarlægt básana en við getum ekki tryggt að þeir birtist ekki aftur. Við þurfum aðstoð allrar Danmörku við það. Ef þú styður Kristjaníu, hættu þá að kaupa kannabis hér.“

Kristjanía var stofnuð af hústökufólki árið 1971 og þar hefur frá upphafi ríkt frjálslegt viðhorf gagnvart „mjúkum“ fíkniefnum. Það breyttist þó eftir að kannabissala á svæðinu, sem áður var í höndum íbúa, var tekin yfir af glæpamönnum.

Lögregluyfirvöld hafa ítrekað gert tilraunir til að hreinsa upp Pusher-stræti. Það var síðast gert í júní, en básarnir birtust aftur innan klukkustunda. Uppi er umræða um lögleiðingu kannabis til að færa söluna úr höndum glæpamanna, en afglæpavæðing nýtur ekki nægjanlegs stuðnings á þingi eins og er. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert