Tyrkir og Rússar styrkja böndin

Pútín og Erdogan á fundi þeirra í ágúst.
Pútín og Erdogan á fundi þeirra í ágúst. AFP

Vladimir Pútín Rússlandsforseti og Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti ætla að vinna að því að styrkja bönd ríkjanna en það var ákveðið á fundi þeirra í kvöld. Þeir eru báðir staddir um þessar mundir í borginni Guangzho í suðurhluta Kína í tengslum við ráðstefnu G20-ríkjanna.

Samband ríkjanna hefur verið stirt síðan í nóvember á síðasta ári þegar tyrkneskar herflaugar skutu niður rússneska herþotu nærri landamærum Tyrklands og Sýrlands. 

Pútín sagði eftir fundinn að framundan væru erfiðir tímar í Tyrklandi sem einkenndust m.a. af baráttu við hryðjuverk og hryðjuverkasamtök. Sagðist hann viss um að samband ríkjanna tveggja verði betra eftir því sem ástandið í Tyrklandi batnar.

Erdogan sagði að stjórnvöld í báðum ríkjum hygðust grípa til ákveðinna ráðstafana til þess að bæta samskiptin. Er m.a. horft til þess að TurkStream-verkefnið verði að veruleika en rússnesk stjórnvöld hættu við verkefnið eftir að Tyrkir skutu niður herþotuna í nóvember. Hugmyndin er að flytja gas frá Rússlandi til Tyrklands og suðurhluta Evrópu.

Samband ríkjanna hefur batnað að undanförnu, eftir að Erdogan sendi Pútín bréf í júní og sagðist sjá eftir atvikinu í nóvember. Eftir misheppnuðu valdaránstilraunina í Tyrklandi var fyrsta opinbera heimsókn Erdogans til Rússlands, sem þótti mjög táknrænt.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka