Það er samningsatriði Íslands og Evrópusambandsins hversu mikið Ísland dregur úr losun gróðurhúsalofttegunda í tengslum við alþjóðlegt átak við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, sem byggist á Parísarsamkomulaginu svonefnda.
Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands, segir hvert þjóðríki þurfa að fullgilda Parísarsamkomulagið á sínu þjóðþingi. Í tilfelli Evrópusambandsins þurfa þjóðríkin hvert og eitt að fullgilda samkomulagið sem gerir það að verkum að Evrópusambandið er svifaseint þegar kemur að fullgildingu Parísarsamkomulagsins.
„Þetta er mjög bagalegt fyrir ESB,“ segir Árni. „Þeir vilja og hafa viljað vera forysturíki í loftslagsmálum,“ segir hann en það eru Austur-Evrópulönd sem helst standa í vegi fyrir því að fullgildingin gangi hratt og örugglega fyrir sig.
Kína og Bandaríkin búin að lögfesta samkomulagið
180 ríki undirrituðu samkomulagið en aðeins 26 ríki hafa lokið fullgildingu, þar á meðal eru Kína og Bandaríkin sem samanlagt bera ábyrgð á losun 40% gróðurhúsalofttegunda.
Árni bendir á að Ísland hafi ekki enn lögfest samkomulagið og telur að íslensk stjórnvöld séu í eins konar póker til þess að kaupa sér einhverja afslætti gegn því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. „Ég held að þetta sé úreltur hugsunargangur því Ísland á allt undir því að vinna bug á þessu,“ segir Árni. „Súrnun sjávar er mjög alvarlegt mál og getur valdið umtalsverðum skaða á lífríkinu sem við reiðum okkur á til að lifa á þessu skeri.“
Utanríkisráðherra dreifði þingsályktunartillögu á föstudag. Árni fagnar því sem þar kemur fram þó að einhverjar athugasemdir megi gera við greinargerðina að hans sögn. Hann vonast til þess að lokið verði við lögfestingu á Alþingi fyrir 22. september þannig að utanríkisráðherra geti farið með góðu fréttirnar út þegar Sameinuðu þjóðirnar koma saman til fundar í New York 22. september.
Til þess að Parísarsamkomulagið öðlist formlega gildi þurfa 55 ríki sem láta samtals frá sér yfir 55 prósent af heildarlosun gróðurhúsalofttegunda að fullgilda samkomulagið.
Ísland hefur þannig dágóða vigt að sögn Árna, eða 1,8 prósent af 55 ríkjum. Þannig gætu íslensk stjórnvöld sýnt af sér sóma með því að ljúka fullgildingu hið fyrsta að sögn Árna sem bendir á að Noregur hefði ekki dvalið lengi við þetta, þarlend stjórnvöld séu búin að ljúka fullgildingu og stefna að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 40 prósent.