Vísindamenn hafa lengi varað við því að strandsvæðum jarðarinnar stafi hætta af hækkandi yfirborði sjávar vegna hnattrænnar hlýnunar. Þær spár eru þegar orðnar að veruleika.
Eftir því sem hlýnar á jörðinni vegna sífellt meira magns af koltvísýringi sem menn dæla út í lofthjúpinn bráðnar landís og höfin þenjast út. Varfærnar spár vísindamanna hafa fram að þessu gert ráð fyrir að hækkun yfirborðs sjávar gæti numið um einum metra á þessari öld. Ýmsar vísbendingar eru hins vegar um að hækkunin gæti orðið mun meiri. Óvissa ríkir enn um hversu hratt þessar stórstígu breytingar gætu átt sér stað.
Í Bandaríkjunum hafa vísindamenn alríkisstjórnarinnar tekið eftir mikilli fjölgun sjávarflóða. Hafið stendur nú þegar svo hátt að á sumum láglendissvæðum á austurströndinni og við Mexíkóflóa er háflóð og sæmileg gola nóg til að sjór flæði yfir götur og inn í hús, að því er kemur fram í ítarlegri umfjöllun New York Times.
Yfirleitt eru þessi flóð ekki ýkja mikil að vöxtum, oft ekki meira en rúmur hálfur metri, en það er nóg til að stöðva umferð, flæða inn í kjallara, eyðileggja garða og skóga og menga drykkjarvatn með salti. Fyrirséð er að vandamálið eigi aðeins eftir að versna eftir því sem höfin rísa frekar.
„Þetta eru ekki hundrað ár í framtíðinni, þetta er núna,“ segir William V. Sweet, vísindamaður bandarísku haf- og loftslagsstofnunarinnar NOAA.
Yfirvöld í ýmsum bæjum, borgum og sýslum hafa reynt að gera sitt til að aðlagast breytingunum sem eru að verða á umhverfi þeirra. Vandamálið er hins vegar tröllaukið og gríðarlega fjármuni þarf til að verja byggð með því að stækka varnargarða, hækka götur og vegi og koma upp dælum sem geta dælt út sjó sem flæðir upp um holræsi.
Á svæðunum sem eru þegar byrjuð að finna fyrir áhrifum loftlagsbreytinga af völdum manna eru stjórnmálamenn úr báðum stóru flokkunum meðvitaðir um vandann. Verr hefur hins vegar gengið að fá ríkis- og alríkisstjórnina til að hjálpa eða einu sinni að leggja línurnar um lausnir.
Fulltrúar Repúblikanaflokksins á Bandaríkjaþingi þráskallast enn við að viðurkenna að loftslagsbreytingar af völdum manna séu veruleiki og hafa staðið í vegi aðgerða á þeim vettvangi enda hafa þeir meirihluta í báðum deildum þingsins.
Þannig hefur bón yfirmanna Bandaríkjahers um fjármagn til að gera honum kleift að aðlaga herstöðvar sjóhersins breyttum aðstæðum fengið lítinn hljómgrunn. Þeir telja að sjóherstöðin í Norfolk í Virginíu, stærsta sjóherstöð í heimi, sé í hættu vegna hækkunar yfirborðs sjávar.
Þegar varnarmálaráðuneytið reyndi að koma áætlun um loftslagsaðlögun fyrir herinn í gegnum fulltrúadeild þingsins í sumar brást meirihluti repúblikana við með því að samþykkja lög sem banna veitingu opinberra fjármuna til verkefnisins. Frumvarpið hefur enn ekki verið samþykkt í öldungadeildinni.
„Þegar við truflum herinn okkar með rótækri loftslagsbreytingastefnu skemmum við fyrir megintilgangi hans að verja Bandaríkin fyrir óvinum,“ sagði Ken Buck, fulltrúadeildarþingmaður repúblikana frá Colorado, sem var einn flutningsmanna frumvarpsins um að banna fjárveitingar til loftslagsaðlögunar hersins.
Fyrrverandi varaaðmírállinn David W. Titley segir við New York Times að landsmenn, og sérstaklega þingmenn, hafi ekki áttað sig á hversu gríðarleg útgjöld þurfi til að fólk geti haldið áfram að búa við strendur eins og það hefur gert fram að þessu.
„Ég hef ekki séð neitt sem bendir til þess að alvarleg hugsun eigi sér stað um þetta: hvernig lítur heimurinn út með þrjú, fjögur, fimm fet af hækkun yfirborðs sjávar?“ segir Titley sem var yfirhaffræðingur sjóhersins og fer nú fyrir loftslagsstofnunar við Ríkisháskólann í Pennsylvaníu.