Kim Jong-Un, leiðtogi Norður-Kóreu, hefur fyrirskipað her sínum að halda áfram að efla kjarnorkuvopnabúr landsins.
Þremur tilraunaflugskeytum var skotið frá Norður-Kóreu í dag, að sögn stjórnvalda í Seúl í Suður-Kóreu.
Frétt mbl.is: Fordæma flugskeytatilraunir N-Kóreu
Á sama tíma hafa leiðtogar heimsins fundað á G20-ráðstefnunni í Kína.
„Hann lagði áherslu á að haldið yrði áfram með það frábæra verk sem hefur verið unnið við að efla kjarnorkuvopnabúr landsins á þessu ári,“ sagði norðurkóreska fréttastofan KCNA um Kim Jong-Un.
Fréttastofan sagði tilraunina í dag hafa gengið fullkomlega upp og að Kim Jon-Un hefði verið yfir sig ánægður með gang mála.
Bandarísk og japönsk stjórnvöld hafa lýst yfir miklum áhyggjum vegna tilrauna N-Kóreumanna.
Frétt mbl.is: Öryggisráðið fundar vegna N-Kóreu
Varnarmálaráðuneyti S-Kóreu sagðist telja að um Rodong-flugskeyti hefði verið að ræða með um 1.000 km drægni og að japönsk stjórnvöld hefðu ekki verið látin vita af þeim.
„Flugskeytaskot N-Kóreu er klárt brot á samþykktum öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna og eiga að sýna styrk landsins í kjarnorku- og flugskeytamálum á meðan á G20-ráðstefnunni stendur,“ sagði talsmaður s-kóreska ráðuneytisins í yfirlýsingu.