Veikleikar Trump birtast í nýrri könnun

Donald Trump virðist hafa tapað stuðningi háskólamenntaðs hvíts fólks sem …
Donald Trump virðist hafa tapað stuðningi háskólamenntaðs hvíts fólks sem hefur verið hliðhollt repúblikönum í síðustu kosningum. AFP

Hvítt háskólamenntað fólk, sérstaklega konur, sem fram að þessu hefur verið hliðhollt repúblikönum virðist hafa snúið við þeim bakinu þegar þeir gerðu Donald Trump að forsetaframbjóðanda sínum. Ný landskönnun á vegum Washington Post sýnir einnig að Texas, eitt helsta vígi flokksins, stendur tæpt.

Forskot Hillary Clinton, frambjóðanda demókrata, á Trump í skoðanakönnunum að undanförnu hefur dregist saman eftir að hún hafði mælst með afgerandi forskot í kjölfar landsfunda flokkanna. Landskönnun Washington Post sem náði til allra ríkjanna fimmtíu leiðir í ljós að Trump sækir stuðning sinn helst til ómenntaðs hvíts fólks, sérstaklega í miðvesturríkjunum þar sem áróður hans gegn frjálsum viðskiptum hefur fallið í frjóan jarðveg.

Trump á hins vegar undir högg að sækja á nokkrum vígstöðvum þar sem repúblikanar hafa haft yfirhöndina í undanförnum kosningum. Árið 2012 studdu 56% hvítra háskólamenntaðra kjósenda Mitt Romney fram yfir Barack Obama sem naut stuðnings 42% þeirra. Clinton hefur hins vegar algerlega snúið taflinu við og nýtur stuðnings meirihluta þessa hóps í 31 ríki af 50. Frambjóðendurnir tveir eru svo gott sem jafnir í sex öðrum ríkjum.

Ein óvæntasta niðurstaða könnunarinnar eru svörin frá Texas sem repúblikanar hafa haldið í fjóra áratugi. Obama tapaði í Texas með 16 prósentustiga mun fyrir Romney árið 2012. Nú mælast Trump og Clinton hins vegar nærri því hnífjöfn, Clinton með 46% gegn 45% hjá Trump.

Könnunin náði til fleiri en 74.000 skráðra kjósenda um öll Bandaríkin og fór fram frá 9. ágúst til 1. september.

Frétt Washington Post af landskönnun sinni

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert