Hvítt háskólamenntað fólk, sérstaklega konur, sem fram að þessu hefur verið hliðhollt repúblikönum virðist hafa snúið við þeim bakinu þegar þeir gerðu Donald Trump að forsetaframbjóðanda sínum. Ný landskönnun á vegum Washington Post sýnir einnig að Texas, eitt helsta vígi flokksins, stendur tæpt.
Forskot Hillary Clinton, frambjóðanda demókrata, á Trump í skoðanakönnunum að undanförnu hefur dregist saman eftir að hún hafði mælst með afgerandi forskot í kjölfar landsfunda flokkanna. Landskönnun Washington Post sem náði til allra ríkjanna fimmtíu leiðir í ljós að Trump sækir stuðning sinn helst til ómenntaðs hvíts fólks, sérstaklega í miðvesturríkjunum þar sem áróður hans gegn frjálsum viðskiptum hefur fallið í frjóan jarðveg.
Trump á hins vegar undir högg að sækja á nokkrum vígstöðvum þar sem repúblikanar hafa haft yfirhöndina í undanförnum kosningum. Árið 2012 studdu 56% hvítra háskólamenntaðra kjósenda Mitt Romney fram yfir Barack Obama sem naut stuðnings 42% þeirra. Clinton hefur hins vegar algerlega snúið taflinu við og nýtur stuðnings meirihluta þessa hóps í 31 ríki af 50. Frambjóðendurnir tveir eru svo gott sem jafnir í sex öðrum ríkjum.
Ein óvæntasta niðurstaða könnunarinnar eru svörin frá Texas sem repúblikanar hafa haldið í fjóra áratugi. Obama tapaði í Texas með 16 prósentustiga mun fyrir Romney árið 2012. Nú mælast Trump og Clinton hins vegar nærri því hnífjöfn, Clinton með 46% gegn 45% hjá Trump.
Könnunin náði til fleiri en 74.000 skráðra kjósenda um öll Bandaríkin og fór fram frá 9. ágúst til 1. september.