Yfirvöld í Mexíkó hafa staðfest að glæpagengi hafi skotið niður þyrlu með öflugum riffli með þeim afleiðingum að flugmaðurinn og þrír lögreglumenn fórust. Þyrlan tók þátt í lögregluaðgerð til að hafa hendur í hári gengisins þegar hún var skotin niður.
Glæpamennirnir virðast hafa notað .50 kalíbera Barrett-riffil til að skjóta niður þyrluna í Michoacán-ríki í suðvesturhluta landsins í gær. Michoacán hefur lengi verið einn helsti vígvöllur fíkniefnastríðsins í landinu og skærur á milli glæpagengja og öryggissveita eru nær daglegt brauð.
Lögregluaðgerðin í gær beindist að glæpagengi sem var grunað um að hafa reynt að ræna bónda í La Huacana. Þjóðaröryggisstjórinn Renato Sales segir að einn maður hafi verið handtekinn en „ég held að hann hafi dáið.“ Yfirvöld séu að reyna að klófesta þá sem bera ábyrgð á því að skjóta niður þyrluna.
Ríkisstjórinn í Michoacán segir að einn maður hafi lifað brotlendinguna af og sé á gjörgæslu. Framburður hans muni skipta sköpum í að komast til botns í því hvað átti sér stað.
Í frétt CNN kemur fram að 42 vopnaðir menn og einn alríkislögreglumaður hafi látið lífið í skotbardaga í ríkinu í maí í fyrra. Í júlí sama ár var borgarstjóri Pungarabato í Guerrero-ríki skotinn til bana á þjóðvegi í Michoacán.