Greiddu 155 milljónir fyrir Panamagögn

Kaupmannahöfn.
Kaupmannahöfn. mbl.is/Ómar Óskarsson

Stjórnvöld í Danmörku hafa greitt 155 milljónir króna fyrir gögn úr Panama-lekanum og hyggjast nú rannsaka hvort 500-600 Danir sem koma við sögu í skjölunum hafi gerst sekir um skattalagabrot.

Danmörk er fyrsta landið sem kaupir gögn úr lekanum, en skjölin koma frá lögfræðifyrirtækinu Mossack Fonseca. Að sögn skattamálaráðherra landsins, Karsten Lauritzen, voru gögnin fengin frá ónefndum aðila sem setti sig í samband við stjórnvöld í sumar.

Ákvörðunin um að kaupa gögnin var tekinn eftir að stjórnvöld höfðu yfirfarið stikkprufu sem þau fengu senda og úrskurðað að skjölin væru ófölsuð. Þá var farið í það að afla samþykkis þingflokka, bakvið tjöldin.

„Allt bendir til þess að þetta séu gagnlegar upplýsingar. Danskir skattgreiðendur sem greiða sína skatta samviskusamlega eiga þetta inni hjá okkur,“ segir Lauritzen en viðurkennir að í fyrstu hafi hann verið fullur tortryggni. Hann segir gögnin hins vegar innihalda marktækar upplýsingar um hundruð Dana.

Það liggur ekki fyrir hvort aðilinn sem seldi dönskum stjórnvöldum gögnin er sá sami og lak þeim til Süddeutsche Zeitung. Skattamálaráðherrann segist ekki vita nákvæmlega hvaðan gögnin komu, en samskiptin milli stjórnvalda og uppljóstrarans fóru dulkóðaðar boðleiðir.

AFP

Skattayfirvöld víða um heim, m.a. í Bretlandi, fóru fram á það í kjölfar Panama-lekans að blaðamenn afhentu þeim gagnagrunninn sem fjölmiðlaumfjöllunin var unnin upp úr. Þeim var öllum neitað.

Rannsókn stendur nú yfir í Danmörku á átta bönkum en bráðabirgðaniðurstöður benda til þess að bankarnir hafi ekki gert nóg til að tryggja að aflandsreikningar væru ekki notaðar til að stinga undan skatti eða stunda peningaþvætti.

Þetta mun vera í fyrsta sinn sem stjórnvöld í Danmörku greiða fyrir upplýsingar um skattasvik.

Guardian sagði frá.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert