Kvenkyns nemandi skaut og særði annan kvenkyns samnemanda á salerni í menntaskóla í Texas í dag. Sú er skaut féll svo fyrir eigin byssukúlu. Þetta segir Ronny Dodson, lögreglustjóri í Brewster-sýslu, í samtali við ABC.
Frétt mbl.is: Skotárás í menntaskóla í Texas
Í frétt Fox News segir að sú slasaða hafi hlaupið út og kallað eftir hjálp og hafi verið flutt á sjúkrahús en áverkar hennar séu ekki taldir lífshættulegir. Þá særðist einnig lögreglumaður þegar hann varð fyrir slysaskoti hermanns á vettvangi en er hann ekki heldur talinn vera í hættu.
Ungur nemandi við skólan sagði í samtali við CNN að önnur kennslustund dagsins hafi verið rétt ný hafin þegar kennari fyrir utan stofuna öskraði; „Farið inn í kennslustofuna!“
„Kennarinn minn [...] kallaði á alla að fara inn í skáp,“ sagði nemandinn við CNN. „Við heyrðum einhvern öskra og hlaupa niður ganginn. Við byrjuðum öll að gráta.“ Stundu síðar bönkuðu lögreglumenn á hurð kennslustofunnar og skipuðu nemendum út.
„Það var blóð á gólfinu í mötuneytinu sem ég sá þegar við gengum út úr skólabyggingunni,“ segir nemandinn. „Einn lögreglumannanna sagði okkur að halda höndum okkar uppi og hlaupa út úr byggingunni svo ég sá blóðið mjög stutt.“
„Þetta var mjög ógnvekjandi. Ég hef aldrei í lífinu verið jafn hrædd.“