Indverskur maður hefur verið dæmdur til dauða fyrir að kasta sýru yfir konu á lestarstöð í Mumbai árið 2013. BBC greinir frá þessu.
Preeti Rathi var 23 ára þegar ráðist var á hana á fjölfarinni lestarstöð í Mumbai. Rathi bjó í Delhi en var nýkomin til Mumbai til að ganga til liðs við indverska sjóherinn sem hjúkrunarfræðingur.
Árásármaðurinn var nágranni hennar, Ankur Panwar, sem sagðist hafa ráðist á hana vegna þess að hún hafi neitað að giftast honum.
Dómurinn þykir marka þáttaskil í sýruárásarmálum á Indlandi. Fórnarlömb sýruárása á Indlandi hafa verið ósátt við hægagang í réttarkerfinu og þau telja að stjórnvöld hafi engan áhuga á málum þeirra. Þetta kom meðal annars fram í úttekt Sky-fréttastofunnar árið 2013, stuttu eftir að ráðist hafði verið á Rathi.
Dómurinn hefur hlotið athygli í indverskum fjölmiðlum í ljósi hversu þungur hann er, en sýruárásarmenn hafa hingað til hlotið tiltölulega væga dóma. Sýruárásin var flokkuð sem morð, en Rathi hlaut alvarleg sár á lungu og augu eftir árásinu og lést mánuði síðar. Líklegt þykir að Panwar muni áfrýja dómnum.
Mánuði eftir að Rathi lést, vorið 2013, úrskurðaði hæstiréttur Indlands að stjórnvöld haldi utan um sölu á sýru, greiði fórnarlömbum bætur og komi á harðari refsingum fyrir slíkar árásir. Stjórnvöld þurfa til að mynda að greiða lækniskostnað þeirra sem verða fyrir slíkum árásum. Erfiðlega hefur þó gengið að fylgja þessum úrskurði eftir.
Samkvæmt upplýsingum frá yfirvöldum eru hundruð sýruárása gerðar á ári hverju á Indlandi. Árásirnar gætu þó hlaupið á þúsundum.