Hlaut dauðadóm fyrir sýruárás

Hundruðir sýruárása eru framkvæmdar á Indlandi á ári hverju.
Hundruðir sýruárása eru framkvæmdar á Indlandi á ári hverju. AFP

Indverskur maður hefur verið dæmdur til dauða fyrir að kasta sýru yfir konu á lestarstöð í Mumbai árið 2013. BBC greinir frá þessu.

Preeti Rathi var 23 ára þegar ráðist var á hana á fjölfarinni lestarstöð í Mumbai. Rathi bjó í Delhi en var nýkomin til Mumbai til að ganga til liðs við indverska sjóherinn sem hjúkrunarfræðingur.

Árásármaðurinn  var nágranni hennar, Ankur Panwar, sem sagðist hafa ráðist á hana vegna þess að hún hafi neitað að giftast honum.

Dómurinn þykir marka þáttaskil í sýruárásarmálum á Indlandi. Fórn­ar­lömb sýru­árása á Indlandi hafa verið ósátt við hæga­gang í rétt­ar­kerf­inu og þau telja að stjórn­völd hafi eng­an áhuga á mál­um þeirra. Þetta kom meðal annars fram í út­tekt Sky-frétta­stof­unn­ar árið 2013, stuttu eftir að ráðist hafði verið á Rathi.

Dómurinn hefur hlotið athygli í indverskum fjölmiðlum í ljósi hversu þungur hann er, en sýruárásarmenn hafa hingað til hlotið tiltölulega væga dóma. Sýruárásin var flokkuð sem morð, en Rathi hlaut alvarleg sár á lungu og augu eftir árásinu og lést mánuði síðar. Líklegt þykir að Panwar muni áfrýja dómnum.

Mánuði eftir að Rathi lést, vorið 2013, úrskurðaði hæstiréttur Indlands að stjórn­völd haldi utan um sölu á sýru, greiði fórn­ar­lömb­um bæt­ur og komi á harðari refs­ing­um fyr­ir slík­ar árás­ir. Stjórnvöld þurfa til að mynda að greiða lækn­is­kostnað þeirra sem verða fyr­ir slík­um árás­um. Erfiðlega hefur þó gengið að fylgja þessum úrskurði eftir.

Samkvæmt upplýsingum frá yfirvöldum eru hundruð sýruárása gerðar á ári hverju á Indlandi. Árásirnar gætu þó hlaupið á þúsundum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert