Sýrlandssamkomulag Bandaríkjanna og Rússlands gegn herskáum öfgahópum í Sýrlandi hefur fengið jákvæðar viðtökur hjá yfirvöldum í Tyrklandi og hjá Evrópusambandinu. Þörf sé þó á frekari aðgerðum.
Sjá frétt mbl.is: Komust að samkomulagi um vopnahlé í Sýrlandi
BBC hefur eftir yfirvöldum í Tyrklandi að brýnt sé að mannúðaraðstoð verði hluti af samkomulaginu frá byrjun, en vopnahléið á að hefjast við sólsetur á mánudag.
Federica Mogherini, yfirmaður utanríkis- og öryggismálastefnu ESB, brýndi fyrir Sameinuðu þjóðunum að undirbúa „pólitísk umskipti“ í Sýrlandi.
Samkomulagið felur meðal annars í sér 10 daga vopnahlé og í framhaldinu verður sett upp sérstök stjórnstöð til að samræma loftárásir. Sýrlenski stjórnarherinn fær ekki að taka þátt í þeim.
Talskona stjórnarandstöðunnar í Sýrlandi segir að samkomulagið feli í sér ákveðna von en þörf sé á frekari smáatriðum í samningnum svo hægt sé að fylgja honum eftir.
Stjórnvöld í Damaskus, höfuðborg Sýrlands, hafa fallist á samkomulagið, samkvæmt upplýsingum frá ríkisfréttastöð Sýrlands, Sana.