Að sögn Mogens Arlund þrábað eiginkona hans hann um að aðstoð við að enda líf sitt. Vibeke Arlund, 71 árs, var lömuð eftir fall og vildi ekki lifa lengur. Vegna þess að hún gat ekki hreyft sig, gat hún hins vegar ekki tekið eigið líf og bað eiginmann sinn um hjálp.
„Hún krafðist þess ekki bara, hún grátbað mig. Og hún hafði gert það frá 3. febrúar,“ sagði Mogens í samtali við TV2 Lorry í Danmörku.
Hinn 9. apríl aðstoðaði hann Vibeke við að taka upp skilaboð þar sem hún sagðist vilja deyja og varð síðan við ósk hennar og gaf henni 20 svefntöflur. Þá lagðist hann niður við hlið hennar á meðan hún kvaddi.
Í síðustu viku var Arlund, 78 ára, dæmdur fyrir að hafa „valdið dauða samkvæmt beiðni“. Hann hlaut 50 daga skilorðsbundið fangelsi en sér ekki eftir neinu.
„Það eina sem virkaði var höfuðið á henni og hún þrábað mig um að frelsa sig úr því fangelsi sem hún var föst í,“ sagði Arlund í dómsal. „Konan sem ég var giftur í yfir 50 ár; ég elska hana og sakna hennar gríðarlega. Ég varð að gera þetta.“
Arlund sagðist hafa verið tilneyddur til að grípa til sinna ráða þar sem dansk samfélag væri gallað að því leiti að það heimilaði ekki veiku fólki að deyja á eigin forsendum.
„Þetta á ekki að vera þannig að maður er tilneyddur til að gera það sem ég gerði,“ sagði hann við TV2 Lorry.
Samkvæmt thelocal.dk er meirihluti Dana sammála Arlund en könnun TV2 bendir til þess að 79% þjóðarinnar sé fylgjandi líknardauða. Meirihluti þingsins og danska siðferðisráðið eru hins vegar mótfallin því að festa líknardauða í lög.
Samtökin En Værdig Død hafa aðstoðað Dani við að komast til Sviss þar sem líknardráp hafa verið lögleg frá 1942. Hár kostnaður setur hins vegar strik í reikninginn hjá mörgum.