„Það er frábært að vera komin til baka í kosningabaráttuna,“ sagði Hillary Clinton, forsetaframbjóðandi Demókrataflokksins, í dag þegar hún sneri aftur eftir að hafa greinst með lungnabólgu á föstudag.
Clinton þurfti að yfirgefa minningarathöfn í New York um hryðjuverkaárásina á Bandaríkin þegar hún fékk hitaslag og varð fyrir vökvatapi. Tilkynnt var í kjölfarið að hún væri með lungnabólgu og að hlé yrði gert á kosningaherferð hennar á meðan hún næði sér. Veikindin hafa ýtt undir kenningar um að Clinton eigi við alvarleg veikindi að stríða. Slíkar kenningar hafa áður verið settar fram.
„Eins og mörg ykkar vita fékk ég hósta á dögunum sem reyndist vera lungnabólga,“ sagði Hillary á fundi í dag. „Ég reyndi að þrjóskast í gegnum það en þurfti að viðurkenna að nokkrir dagar af hvíld myndu líklega gera mér gott.“
Þá sagðist Clinton ekki vera góð í því að taka því rólega, jafnvel undir venjulegum kringumstæðum. „En þegar það eru aðeins tveir mánuðir í kjördag var heima í sófa seinasti staðurinn sem mig langaði að vera á.“
Donald Trump, forsetaframbjóðandi repúblikana hefur ítrekað minnst á heilsufar keppinautarins og í síðasta mánuði sagði hann við stuðningsmenn sína að hann efaðist um að andleg sem líkamleg heilsa hennar væri nægjanlega góð svo hún gæti sinnt embættisskyldum forseta Bandaríkjanna.