Trump hvorki drekkur né reykir

Samkvæmt yfirliti læknis Trumps er hann við hestaheilsu.
Samkvæmt yfirliti læknis Trumps er hann við hestaheilsu. AFP

Donald Trump, forsetaframbjóðandi Repúblíkanaflokksins í Bandaríkjunum, er við „frábæra líkamlega heilsu“. Þetta kemur fram í niðurstöðum heimilislæknis hans sem framboð Trumps sendi frá sér í dag.  Drekkur hann hvorki né reykir.

Trump er 70 ára gamall, 190 sentímetra hár og mælist 107 kíló að því er segir í tilkynningunni. Þá er tekið fram að starfsemi skjaldkirtils og lifrar sé mjög góð. Þá tekur heimilislæknirinn, Harold Bornstein, fram í yfirliti sínu hvernig kólesteról, blóðsykur og blóðþrýstingur mælist hjá Trump.

Þau lyf sem Trump tekur eru lyf til að lækka kólesterólmagn og lítið magn af aspirínverkjalyfjum. Þá hvorki reykir Trump tóbak né drekkur áfengi að því er fram kemur í yfirlitinu.

Heilsa forsetaframbjóðendanna hefur verið nokkuð í sviðsljósinu undanfarna daga eftir að Hillary Clinton, frambjóðandi Demókrataflokksins, fékk lungnabólgu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert