Rahami handtekinn eftir skotbardaga

Frá vettvangi í Linden í dag.
Frá vettvangi í Linden í dag. AFP

Maðurinn sem eftirlýstur var vegna sprenginganna í New York og New Jersey hefur verið handtekinn í kjölfar skotbardaga við lögreglu. Var hann handtekinn í bænum Linden í New Jersey, að því er fram kom í máli lögreglu á sjónvarpsstöðinni NBC.

Maðurinn, sem nefnist Ahmad Khan Rahami, er 28 ára Bandaríkjamaður og fæddist í Afganistan.

Linden er skammt suðvestan við bæinn Elizabeth í New Jersey, heimabæ Rahami, þar sem fulltrúar alríkislögreglunnar FBI fundu og gerðu óvirkan fjölda sprengja sem komið hafði verið fyrir á lestarstöð.

Sjá ítarlega fréttaskýringu mbl.is: Margt á huldu um árásirnar

FBI hefur gert mikla leit að Rahami eftir sprengingarnar.
FBI hefur gert mikla leit að Rahami eftir sprengingarnar. AFP

Lýst var eftir Rahami vegna gruns um aðild að sprengingunum í Chelsea-hverfinu í New York, þar sem 29 manns særðust, og rörsprengjuárás við Jersey-ströndina, sem varð engum að tjóni.

Hann var handtekinn aðeins fjórum klukkustundum eftir að FBI hafði gefið út mynd af honum brúnhærðum og -skeggjuðum, þar sem hann var sagður „vopnaður og hættulegur“, í textaskilaboðum til þeirra milljóna manna sem búa í New York og nágrenni.

Uppfært 15.55:

Sjónvarpsupptökur CNN sýna Rahami þar sem hann var borinn á sjúkrabörum inn í sjúkrabíl eftir að hafa særst í skotbardaga við lögregluna. Hafði hann blóðugar sáraumbúðir á hægri handlegg, hristi höfuðið til hliðanna með augun opin og bringa hans var að hluta til undir teppi.

Tveir særðust auk Rahami í skotbardaganum.
Tveir særðust auk Rahami í skotbardaganum. AFP

Uppfært 16.07:

Tveir lögreglufulltrúar urðu fyrir skoti og særðust í skotbardaganum. Þetta segir bæjarstjóri Elizabeth, Chris Bollwage, í samtali við fréttastofu CNN.

„Einn lögreglufulltrúi var skotinn í bringuna og annar í hendina. Þá varð Rahami einnig fyrir skotum,“ sagði Bollwage.

Lögregla gaf út mynd af Rahami fyrr í dag og …
Lögregla gaf út mynd af Rahami fyrr í dag og lýsti eftir honum. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert