Vestræn stjórnvöld þurfa að taka á vaxandi andúð á innflytjendum með því að hjálpa hinum aðfluttu til þess að aðlagast hraðar. Þetta er álit Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD). Tilefnið er mikil aukning í komu fólks til aðildarríkja stofnunarinnar.
Fram kemur í frétt AFP um 4,8 milljónir manna hafi komið til aðildarríkja OECD á síðasta ári sem sé auking um 10% á einu ári. Vísað er í því sambandi til talna frá stofnuninni. Þar á meðal væri rúm 1,6 milljón umsækjendur um alþjóðlega vernd. Af þeim fjölda hefði 1,3 milljón sótt um alþjóðlega vernd í Evrópuríkjum. Á sama tíma hafi fylgi stjórnmálamanna og stjórnmálaflokka sem gerðu út á andúð á innflytjendum aukist verulega.
„Almenningur er að missa trúna á getu ríkisstjórna til þess að stýra innflytjendamálum,“ segir í skýrslu frá OECD um málið. Illa gengi að koma þeim skilaboðum á framfæri að aðfluttningur fólks hefði á heildina litið jákvæð áhrif til lengri tíma litið. Þeir sem fyrir væru óttuðust að ráðamenn væru að missa stjórnina á málaflokknum, almannaþjónusta yrði fyrir of miklu álagi og að innflytjendur vildu ekki aðlagast.
Horfast yrði í augu við það að aðflutningur fólks hefði ekki sömu áhrif fyrir hagsmuni allra. Þannig yrði að viðurkenna að mikill aðflutningur verkafólks gæti dregið út atvinnumöguleikum verkafólks sem fyrir væri. Ríkisstjórnir yrðu að tryggja að atvinnurekendur nýttu sér ekki aðstæður til þess að fara í kringum lágmarkslaun og vinnumarkaðslöggjöf.
„Stóra verkefnið framundan núna er aðlögun,“ er haft eftir Angel Gurria, framkvæmdastjóri OECD. Ríkisstjórnir yrðu að hraða vinnu við að leggja mat á starfshæfni innflytjenda og leggja meira fé í tungumálakennslu til þess að auka atvinnumöguleika þeirra. Fram kemur í fréttinni að í dag taki innflytjenda um 20 ár að meðaltali að standa jafnfætis þeim sem fyrir eru þegar kemur að atvinnumöguleikum.
Gurria tók Svíþjóð sem gott dæmi í þessum efnum. „Þeir bíða ekki eftir því að innflytjendur læri sænsku og öðlist hæfi til þess að starfa sem verkfræðingar eða hvað annað. Þeir koma þeim í vinnu og byrja að kenna þeim sænsku á vinnustaðnum.“
OECD kallar í skýrslunni eftir auknu alþjóðlegu samstarfi við að takast á við innflytjendamál á heimsvísu. Meðal annars að gera aðfluttum einstaklingum kleift að ferðast með öruggum hætti í stað þess að þurfa að treysta á smyglara. Til að mynda með því að gefa út fleiri vegabréfsáritanir fyrir námsmenn og fjölskyldur.
Hægt yrði til að mynda að koma á eins konar lottói fyrir flóttamenn sem skráðir væru hjá Flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna. Þannig ættu allir jafna möguleika „á að fara löglegu leiðina.“