Stjórnvöld í Rússlandi eru ævareið vegna „órökstuddra“ ásakana um að rússneskar eða sýrlenskar herþotur hafi gert árás á bílalest með hjálpargögn nærri Aleppo í gærkvöldi.
Að minnsta kosti 20 létust í árásinni, þeirra á meðal starfsmenn Rauða hálfmánans, og þá voru 18 farartæki voru eyðilögð.
Í kjölfar árásarinnar sögðu stjórnvöld í Washington að það hefði aðeins verið á færi stjórnarhers Bashar al-Assad Sýrlandsforseta eða bandamanna hans í Rússlandi að gera umrædda loftárás og að yfirvöld í Moskvu þyrftu að axla ábyrgð hvor sem væri.
Utanríkisráðuneyti Rússlands hefur svarað ásökununum og sagst fylgjast með af „hneykslan og reiði“ á meðan „verndarar hryðjuverka- og stigamanna“ kenndu Rússlandi eða Sýrlandi um árásina.
Í yfirlýsingu frá ráðuneytinu segir að ásakanirnar séu settar fram í þeim tilgangi að beina athyglinni frá „undarlegum mistökum“ flugmanna bandamanna.
Rússneski herinn segir upptökur af vettvangi sýna skemmdir sem geta hvorki verið af völdum árásar úr lofti né annarra skotvopna.
Varnarmálaráðuneyti Rússlands hefur sagt að þvert á móti hafi eldur læst sig í bílalestina á sama tíma og uppreisnarmenn gerðu árásir á Aleppo.
Sýrlenski herinn hefur einnig neitað að hafa staðið að baki árásinni.