Öfga-íslamistinn Ubaydullah Hussain er sá fyrsti sem ákærður er fyrir að safna nýliðum fyrir hryðjuverkasamtök í Noregi. Hussain var ákærður í Ósló á mánudag.
Hussain, sem er 31 árs að aldri, er sakaður um að hafa aðstoðað fólk sem vildi starfa með hryðjuverkasamtökum, keypt fyrir það búnað og komið því í samband við liðsmenn vígasamtakanna Ríkis íslams.
Lögmaður Hussains, John Christian Elden, segir að skjólstæðingur hans neiti sök.
Samkvæmt gögnum málsins aðstoðaði Hussain fimm Norðmenn við að komast í tengsl við hryðjuverkamenn og fékk að minnsta kosti tvo til þess að ganga til liðs við samtökin. Hann er einnig ákærður fyrir að hafa séð um að skipuleggja ferðalög þeirra sem annaðhvort ætluðu eða gengu til liðs við Ríki íslams í Sýrlandi.
Einn þeirra sem Hussain aðstoðaði var 19 ára gamall, en sá var handtekinn í Svíþjóð í fyrra. Annar, 24 frá Halden, var drepinn í landamærabænum Kobani í Sýrlandi árið 2015. Samkvæmt norskum lögum er bannað að ganga til liðs við eða styðja hryðjuverkasamtök.
Frétt mbl.is: Hryðjuverkamaður áfram í gæsluvarðhaldi
Hussain hefur setið í gæsluvarðhaldi frá því í desember í fyrra og verður mál hans dómtekið 3. nóvember í héraðsdómi í Ósló. Talið er að málið verði sex vikur fyrir dómi. Í febrúar 2014 var Hussain dæmdur í 120 daga fangelsi fyrir hótanir. Hann var ákærður fyrir að hvetja til hryðjuverka og lofa hryðjuverkasamtök, meðal annars með því að birta myndir af dæmdum hryðjuverkamönnum á Facebook árið 2013. Hann var hins vegar sýknaður af ákæru. Þegar áfrýjunardómstóll tók málið fyrir í fyrra var hann aftur sýknaður af ákæru um að hvetja til hryðjuverka.