Saka Rússa um árásina

Bandarísk yfirvöld segja að Rússar beri ábyrgð á árásinni sem gerð var á bílalest Sameinuðu þjóðanna sem var að flytja hjálpargögn til íbúa í Aleppo í fyrrakvöld.

Í tilkynningu frá forsetaembætti Bandaríkjanna er talað um skelfilegan mannlegan harmleik. Á sama tíma segja bandarískir embættismenn í viðtali við BBC að tvær rússneskar herþotur hafi gert árásina á bílalestina. 

Rússar neita harðlega að eiga aðild að árásinn og segja að sýrlenski stjórnarherinn hafi heldur ekki verið að verki. Rússnesk yfirvöld halda því fram að eldur á jörðu niðri hafi valdið eyðileggingunni ekki loftárásir.

„Það er enginn gígur og ytra byrði ökutækjanna ber ekki merki um eyðileggingu sem þá sem verður ef sprengjum er varpað,“ segir í tilkynningu frá rússneska varnarmálaráðuneytinu.

Talsmaður rússneska utanríkisráðuneytisins segir að bandarísk yfirvöld hafi engin gögn sem styðja við ásakanir þeirra. „Við komum ekki nálægt þessu,“ segir í tilkynningu frá ráðuneytinu.

Bandarískir embættismenn sem ekki vilja láta nafns síns getið í frétt BBC segja að tvær rússneskar árásarþotur, SU-24, hafi flogið fyrir ofan bílalestina á nákvæmlega því augnabliki sem árásin var gerð við bæinn Urum al-Kubra í útjaðri Aleppo. Árásin hafi verið svo fullkominn að það væri ekki mögulegt að sýrlenski herinn hefði gert hana. 

Talsmaður Hvíta hússins, Ben Rhodes, segir að aðeins tveir möguleikar séu í stöðunni: sýrlensk yfirvöld eða rússnesk og að talið sé að rússneska ríkisstjórnin beri ábyrgð á loftárásum í þessari lofthelgi. 

Aftur á móti segja forsvarsmenn Sameinuðu þjóðanna að ekki sé hægt að fullyrða að um loftárás hafi verið að ræða. 18 af 31 flutningabíl eyðilögðust og 20 almennir borgarar, þar á meðal yfirmaður sýrlenska Rauða hálfmánans. Í kjölfar árásarinnar hafa SÞ stöðvað allar flutninga á hjálpargögnum til staða sem eru í herkví í Sýrlandi.

Einn af 18 flutningabílum sem gjöreyðilögðust í árásinni.
Einn af 18 flutningabílum sem gjöreyðilögðust í árásinni. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert